Enski boltinn

Mesut Özil: Ég vil vera áfram hjá Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mesut Ozil er ánægður hjá Arsenal.
Mesut Ozil er ánægður hjá Arsenal. Visir/Getty
Þýski landsliðsmaðurinn Mesut Özil vill ekki fara frá Arsenal ef marka má nýjasta viðtalið við kappann en hann er núna að detta inn á síðasta árið á samningi sínum við félagið.

Özil ræddi við blaðamann BBC í dag og þar kom fram vilji hans til að ræða nýjan samning við Arsenal þegar liðið snýr aftur úr æfingaferð til Ástralíu og Kína.

„Ef ég fæ að velja þá verð ég áfram hjá Arsenal. Um leið og allir eru komnir aftur til London þá munum við setjast niður og ræða framtíðina. Ég hef alltaf sagt að mér líði vel hjá Arsenal,“ sagði Mesut Özil.

Özil er 28 ára gamall og ætti að eiga sín bestu ár eftir. Hann hefur spilað 84 landsleiki fyrir Þýskaland og hefur unnið bæði HM gull og HM brons.

Özil kom til Arsenal frá Real Madrid fyrir 42,2 milljónir punda haustið 2013 en þar sem ekkert fréttist af nýjum samningi hafa enskir fjölmiðlar verið duglegar að velta fyrir sér framtíð hans.

Özil varð enskur bikarmeistari í þriðja sinn í vor (2014, 2015 og 2017) en hann hefur einnig unnið bikarinn í Þýskalandi (Werder Bremen 2009) og á Spáni (Real Madrid (2011). Özil hefur aftur á móti aðeins einu sinni unnið meistaratitil með sínu liði (Real Madrid 2012) og hann hefur aldrei fagnað sigri í Meistaradeildinni.

Özil vill ekki fara frá Arsenal en það er minna vitað um framtíð Alexis Sanchez og Olivier Giroud en þeir hafa verið mikið í gulu pressunni eins og Özil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×