Innlent

Perla sjósett í ástandi sem skapaði mikla hættu á tjóni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Tæpur klukkutími leið frá því að Perla var sjósett og þar til hún var sokkin í Reykjavíkurhöfn.
Tæpur klukkutími leið frá því að Perla var sjósett og þar til hún var sokkin í Reykjavíkurhöfn. vísir/vilhelm
Stálsmiðjunni, rekstraraðila slippsins í Reykjavík, og tryggingafélag þess, Tryggingamiðstöðinni, var í dag gert að greiða Sjóvá Almennum um 113 milljónir króna vegna tjóns sem hlaust af því þegar sanddæluskipið Perla RE sökk í Reykjavíkurhöfn þann 2. nóvember 2015. Þá er það niðurstaða héraðsdóms að skipið hafi verið sjósett í ástandi sem skapaði mikla hættu á að það yrði fyrir tjóni.

Sjóvá greiddi tæpar 233 milljónir króna til Björgunar ehf., eiganda, vegna tjónsins en fyrirtækið var með tryggingar sínar hjá Sjóvá. Sjóvá krafðist rúmlega 231 milljóna króna frá Stálsmiðjunni og TM þar sem félagið taldi að stefndu bæru skaðabótaábyrgð á því tjóni sem varð er Perla sökk.

Sanddæluskipið var tekið í slipp rúmum mánuði áður en það sökk eða þann 23. september 2015. Það var svo sjósett þann 2. nóvember og hófst sjósetningin klukkan 10:25 um morguninn. Tæpum klukkutíma síðar, eða klukkan 11:13, var skipið sokkið til botns í Reykjavíkurhöfn.

Þrjár meginástæður fyrir því að skipið sökk

Að því er fram kemur í dómnum voru þrjár meginástæður fyrir því að Perla sökk. Í fyrsta lagi var blöndunarlokinn opinn þegar skipið var sjósett en hann er 450 millimetrar í þvermál og staðsettur fremst í stokknum sem liggur eftir endilangri lestinni. Blöndunarloki er vanalega opinn þegar skip eru í slipp en það hefði þurft að loka honum áður en skipið var sjósett.

Í öðru lagi var óhappið rakið til þess að tvö göt höfðu verið skorin í lestargólfið ofan við botntank númer 1 stjórnborðsmegin þannig að sjór átti greiða leið niður út lestinni í botntankinn.

Í þriðja lagi var mannop opið en það liggur úr verkstæði ofan við botntank númer 1 og niður í tankinn. Þar með komst sjór úr honum inn í þurrrými skipsins, en það, ásamt stjórnborðshallanum, leiddi að lokum til þess að skipið sökk.

Af hálfu Sjóvá var á því byggt í málinu að starfsmenn Stálsmiðjunnar hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og að orsakir tjónsins megi rekja til þess. Þá var á því byggt að vanræksla þeirra hafi verið saknæm og ólögmæt þar sem tjónið væri sennileg afleiðing hennar.

Kröfðust sýknu í málinu

Þannig taldi tryggingafélagið að starfsmennirnir hefðu gert röð mistaka við niðurslökun skipsins og að verklag og framkvæmd hennar hafi farið í bága við starfsreglur Stálsmiðjunnar. Þannig hafi starfsmennirnir til að mynda haft vitneskju um að blöndunarlokinn væri opinn.

„Þá hafi starfsmenn stefnda skorið götin í botntankinn og opnað framangreint mannop sem hafi átt eftir að skipta sköpum þegar altjón varð á Perlunni. Stefnandi kveður umrædd mannop hafa verið ástæðu þess að sjór hafi komist í þurrrými skipsins og skipið sokkið. Fullyrðir stefnandi að ekkert tjón hefði orðið hefðu mannopin ekki verið skorin á botntankinn enda hefði sjór þá ekki komist úr botntankinum og yfir í þurrrými,“ segir í dómi héraðsdóms.

Stálsmiðjan og TM kröfðust sýknu í málinu og byggðu á því að Stálsmiðjan hefði að öllu leyti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Björgun sem gerði út Perlu. Tjónið væri þannig með engu móti hægt að reka til ólögmætra og saknæmra athafna starfsmanna fyrirtækisins.

Frá björgunaraðgerðum í Reykjavíkurhöfn eftir að skipið sökk.vísir/ernir
„Stefndi Stálsmiðjan hafnar því alfarið að starfsmenn hans hafi sýnt af sér vanrækslu eða gáleysi, hvað þá stórkostlegt gáleysi eftir að skipið hafði verið sjósett. Eins og rakið hafi verið hafi ábyrgð á stjórn og flutningi skipsins eftir sjósetningu þess alfarið verið í höndum útgerðar. Útgerðin hafi ekki getað reitt sig á að starfsmenn stefnda gætu komið í stað skipstjóra um borð enda hafi þeir enga þekkingu á stjórnbúnaði skipsins eða réttindi til að sinna störfum skipstjóra um borð. Því hafi útgerðinni verið rétt og skylt að manna skip með áhöfn sem þekki eiginleika skipsins og stjórnbúnað. Útgerðin hafi kosið að gera það ekki í þessu tilviki. Þá hafi hún hafnað framsettri beiðni vélstjórans um að skipstjóri yrði hafður um borð eins og kveðið sé á um í lögum nr. 30/2007. Útgerðarstjóri skipsins hafi ákveðið að vélstjórinn hefði umsjón með flutningi skipsins um Reykjavíkurhöfn,“ segir um málsástæður og lagarök stefndu í dómi héraðsdóms.



Upplýst að starfsmenn Stálsmiðjunnar sýndu af sér saknæmt aðgæsluleysi


Niðurstaða fjölskipaðs héraðsdóms var engu að síður sú að upplýst væri „að starfsmenn stefnda Stálsmiðjunnar hafi sýnt af sér saknæmt aðgæsluleysi við undirbúning og framkvæmd niðurslökunar á Perlu RE 2. nóvember 2015. Af þeim sökum var skipið sjósett í ástandi sem skapaði mikla hættu á því að það yrði fyrir tjóni þegar það varð laust úr sleðanum við slippinn. Skilyrðum um orsakatengsl og sennilega afleiðingu er við þessar aðstæður fullnægt að mati dómsins. Í þessu ljósi og að teknu tilliti til almennra reglna skaðabótaréttar verður því að fallast á með stefnanda að stefndi Stálsmiðjan beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem hlaust af því að skipið sökk í Reykjavíkurhöfn.“

Voru Stálsmiðjan og TM því dæmd til að greiða Sjóvá um 113 milljónir króna eins og áður segir með dráttarvöxtum. Málskostnaður milli aðila var felldur niður.

Dóminn má sjá í heild sinni hér.


Tengdar fréttir

Perlan enn á kafi í höfninni

Nú liggur fyrir tillaga Björgunar ehf. um hvernig mögulegt er að standa að verki við að ná Perlunni af hafsbotni við Ægisgarð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×