Enski boltinn

Swansea hefur hafnað fimm milljarða tilboðum í Gylfa frá bæði Everton og Leicester

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Verðmiðinn á Gylfa Þór Sigurðssyni er hár.
Verðmiðinn á Gylfa Þór Sigurðssyni er hár. Vísir/Getty
Forráðamenn Swansea City ætla ekki að gefa sig. Þeir munu ekki selja Gylfa Þór Sigurðsson fyrir minna en 50 milljónir punda eða 6,7 milljarða íslenskra króna.

Enskir fjölmiðlar segja frá því að Swansea hafi bæði fengið 40 milljón punda tilboð frá Everton og Leicester City en það eru rúmir fimm milljarðar íslenskra króna. Tilboðið frá Leicester bauð líka upp á möguleika á að kaupverðið hækkaði næði Gylfi og liðið ákveðnum markmiðum.  BBC fjallar um málið en það gera líka Guardian og Sky Sports.

Gylfi flaug ekki með Swansea liðinu til Bandaríkjanna í morgun þar sem liðið verður í æfingabúðum næstu dagana. Ástæðan er að hann var ekki í réttu hugarástandi til að spila með liðinu á þessum tímapunkti. Gylfi hætti við að fara aðeins 45 mínútum fyrir brottför út á flugvöll.

Enskir fjölmiðlar koma þessa stundina með hverja fréttina af Gylfa á fætur annarri og það lítur út fyrir að Everton og Leicester City séu hreinlega komin í mikið kapphlaup um  hvort liðið nái að kaupa íslenska landsliðsmanninn áður en tímabilið hefst.

Gylfi á eftir þrjú ár af samningi sínum og hefur sagt að hann vilji spila áfram með liðinu sem hann hefur hjálpað að halda sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni tvö tímabil í röð. 9 mörk og 13 stoðsendingar hans á síðustu leiktíð sjá aftur á móti til þess að áhuginn er mikill þrátt fyrir að Swansea vilji ekki selja hann fyrir minna en svona risaupphæð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×