Innlent

Saka Vínbúðirnar um bruðl með almannafé

Benedikt Bóas skrifar
Kaldi býr til bjór en getur ekki auglýst framleiðsluna. Ólíkt ÁTVR sem auglýsir til að minna starfsfólk á að spyrja um skilríki. Fréttablaðið/Pjetur
Kaldi býr til bjór en getur ekki auglýst framleiðsluna. Ólíkt ÁTVR sem auglýsir til að minna starfsfólk á að spyrja um skilríki. Fréttablaðið/Pjetur

Eðlilegra hefði verið að senda tölvupóst á starfsmenn eða hreinlega halda starfsmannafund til að minna starfsfólk ÁTVR á að biðja viðskiptavini um skilríki en að fara í tugmilljóna auglýsingaherferð. Þetta er samdóma álit þeirra þingmanna sem styðja áfengisfrumvarpið og Fréttablaðið náði tali af í gær.

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR

Auglýsingaherferð ÁTVR, Röðin, kostaði 13 milljónir króna og sagði Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, í skriflegu svari til fréttastofu 365 að auglýsingarnar væru hvatning og áminning til starfsfólks stofnunarinnar um mikilvægi þess að biðja um skilríki.

„Þetta er enn eitt dæmið um hversu ankannalegt er að ríkisfyrirtæki hafi einokunarverslun í smásölu með áfengi,“ segir Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. 

„Það er ekki heimilt samkvæmt íslenskum lögum að auglýsa lögmæta vöru þannig að það þarf að fara fjallabaksleiðir til þess. Jafnvel af einokunarfyrirtæki – þannig að jú, þetta er mjög sérstakt mál,“ bætir hann við.

Röðin er nýjasta herferð ÁTVR.

Raunveruleikaþáttur
Auglýsingin er í formi raunveruleikaþáttar þar sem þátttakendur koma fyrir sérhæfða dómnefnd, skipaða tannlækni, lögreglumanni, dyraverði, sálfræðingi og förðunarfræðingi, sem eiga að aldursgreina viðkomandi. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, tók í sama streng og Teitur og skildi lítið í því að skattgreiðendur væru að borga fyrir ímyndar­baráttu ríkisfyrirtækis í einokunarstöðu.

Áslaug var í viðtali við Í bítið í gær.

„Það er dýrt að fara svona með skattpeninga. Það hefði verið auðveldara að senda tölvupóst eða halda starfsmannafund,“ bætti hún við.

Teitur segir að þetta dragi fram þá tímaskekkju sem stofnunin ÁTVR sé. 

„Það er erfitt að átta sig á rekstrinum á þessu fyrirtæki. Hvaða hluti ber þessa starfsemi uppi. Ef maður skoðar starfsmannafjöldann þá eru um 14 starfsmenn á hverja búð. Er það góður rekstur eða ekki? Það er ekki nokkur leið að segja til um það því maður veit ekki hvernig einkaaðilar myndu þjónusta neytendur sem best. Það er engin stjórn yfir þessu fyrirtæki heldur heyrir þetta beint undir fjármálaráðherra. Ég veit ekki til þessa að ráðherra skipti sér af stjórnunarháttum þessarar stofnunar. Það er hægt að draga fram alls konar sérkennilega hluti sem snúa að þessari stofnun og þessi auglýsing er bara enn eitt dæmið.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira