Erlent

Vinir og stuðningsmenn Liu Xiaobo æfir yfir ákvörðun stjórnvalda

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Liu Xia, eiginkona hins látna fer með bænir. Ösku Liu Xiaobo var dreift yfir hafið.
Liu Xia, eiginkona hins látna fer með bænir. Ösku Liu Xiaobo var dreift yfir hafið. Vísir/AFP
Vinir og stuðningsmenn kínverska aðgerðasinnans Liu Xiaobo eru æfir út í kínversk stjórnvöld sem tóku þá ákvörðun, í miklum fljótheitum, að dreifa ösku Xiaobo í hafið norðaustur af Kína. Vinir hans telja að yfirvöld hafi farið sér óðslega til að aftra því að Xiaobo fengi viðeigandi grafreit. Þetta kemur fram á vef The Guardian.

Vinir Xiaobo létu í ljós reiði sína yfir tilhöguninni. Það hafi vakið með þeim viðbjóð hvernig staðið var að því að kveðja hann.

„Þetta er of illgjarnt. Allt of illgjarnt,“ segir höfundurinn Liao Yiwu, náinn vinur hins látna, sem er í útlegð.

 

Listamaðurinn Ai Weiwei óttast það að kínversk stjórnvöld kúgi fjölskyldu hins látna.
„Valdhafar hljóta að vera geðveikir. Þeir hafa gert það allra versta. Það sem virtist óhugsandi,“ segir Mo Zhixu, vinur Xiaobo og aðgerðasinni.

Heimsþekkti listamaðurinn Ai Weiwei hefur valdhafa grunaða um að hafa ákveðið að dreifa ösku Xiaobo yfir hafið til að neita aðdáendum hans um grafreit. Að neita vinum og stuðningsmönnum um stað til að koma á og minnast Xiaobo og hugmynda hans.

„Þetta er leikrit,“ segir Weiwei sem finnst þetta afskaplega sorglegt.

Í tilkynningu frá kínversku ríkisstjórninni segir að farið hefði verið að óskum fjölskyldu hins látna. Fjölskyldan hafi beðið um að ösku Xiaobo yrði dreift yfir hafið. Bróðir hans, Xiaoguang, staðfestir þetta og segist þakklátur kínverskum stjórnvöldum. Mannúð og umhyggja hafi verið í fyrirrúmi í öllu því sem hafi verið gert fyrir fjölskylduna.

Vinir Xiaobo eru þess fullvissir að Xiaoguang hafi verið þvingaður til að tjá sig í fjölmiðlum. Yfirlýsingin hafi augljóslega verið gegn vilja hans.

Xiaobo lést síðastliðinn þriðjudag 61 ára að aldri. Hann var Kínverskur aðgerðarsinni og handhafi friðarverðlauna Nóbels. Hann hafði glímt við ólæknandi lifrarkrabbamein og var sleppt úr fangelsi í Kína vegna veikindanna. Xiaobo var dæmdur í ellefu ára fangelsi árið 2009 fyrir greinina „Charter 08“, hvar hann hvatti til aukins lýðræðis í Kína. Honum var veitt reynslulausn stuttu áður en hann lést.

Liu Xiaobo fékk krabbamein sem dró hann til dauða. Hann lést 61 ára.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×