Fótbolti

Aron nýtti tækifærið vel þegar það kom loksins

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Aron minnti á sig með marki og stoðsendingu í dag.
Aron minnti á sig með marki og stoðsendingu í dag. vísir/getty
Aron Jóhannsson skoraði fyrsta mark sitt fyrir Werder Bremen í tæplega ár og lagði upp annað í 3-0 sigri á VfL Osnabruck í æfingarleik í dag.

Aron sem var úti í kuldanum á síðasta tímabili byrjaði leikinn og var fljótur að minna á sig. Eftir aðeins átján mínútna leik var hann búinn að brjóta ísinn með snyrtilegu skoti.

Tveimur mínútum síðar lagði hann upp mark fyrir austurríska miðjumanninn Zlatko Junuzovic sem bar fyrirliðabandið í dag.

Aron var tekinn af velli á 60. mínútu og fékk því klukkutíma í dag en næsti æfingarleikur liðsins er gegn St Pauli á laugardaginn kemur.

Gæti þetta mark reynst Aroni gríðarlega mikilvægt upp á framhaldið að gera en þýska tímaritið Kicker greindi frá því að hann myndi yfirgefa félagið í sumar eftir aðeins sautján leiki í treyju Werder þar sem hann hefur skorað þrjú mörk.

Var þetta fyrsta mark hans frá ellefta september í fyrra en hann fékk rautt spjald í næsta leik og fékk fá tækifæri eftir það sem honum tókst ekki að nýta sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×