Fótbolti

Ingibjörg: Er svo stolt af því að vera Íslendingur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ingibjörg Sigurðardóttir fær hér gult spjald frá ítalska dómaranum.
Ingibjörg Sigurðardóttir fær hér gult spjald frá ítalska dómaranum. Vísir/Getty
Ingibjörg Sigurðardóttir, hin ungi miðvörður íslenska liðsins, gaf ekkert eftir í baráttunni við hina reynslumiklu Eugénie Le Sommer í franska landsliðinu í kvöld.

Eugénie Le Sommer skoraði á endanum sigurmarkið úr vítaspyrnu en fram að því hafði hún ekki fengið úr miklu að moða í framlínunni. Það þurfti ódýra vítaspyrnu til að gera út um leikinn.

„Mér leið vel inn á vellinum. Það koma smá yfir mann um leið og þjóðsöngurinn var spilaður en um leið og leikurinn byrjaði þá var þetta ekkert mál,“ sagði Ingibjörg Sigurðardóttir við Kolbein Tuma Daðason eftir leikinn.

„Mér fannst ég ná að spila minn leik og mér fannst við allar eiga frekar góðan leik, “ sagði Ingibjörg

„Ég held að mér hafi aldrei liðið svona áður. Ég er svo stolt af því að vera Íslendingur og fá að taka þátt í þessu. Það að allir þessir áhorfendur hafi komið er geggjað, “ sagði Ingibjörg

„Þetta var mjög skrýtið hjá okkur í klefanum eftir leik. Við vorum allar ógeðslega svekktar að hafa tapað þessum leik. Okkur fannst öllum að við áttum eitthvað skilið út úr þessum leik. Við skildum allt eftir á vellinu og gerðum okkar besta. Við vorum sáttar með það allavega, “ sagði Ingibjörg

„Við erum bara ákveðnar að koma sterkari inn í næstu leiki og klára þá bara, “ sagði Ingibjörg.

„Ég sá vítið ekki vel en mér fannst þetta ekki vera víti. Við áttum líka að fá víti í fyrri hálfleik þegar Fanndís fór niður í teignum. Þetta féll bara ekki með okkur í dag, “ sagði Ingibjörg.

Hún átti eina svakalega tæklingu í leiknum og lét þá Eugénie Le Sommer finna vel fyrir sér.

„Mér er alveg drullusama um þessar gellur. Ég þoli ekki svona hroka og finnst ekkert skemmtilegra en að þagga niðri í þeim og láta aðeins finna fyrir mér, “ sagði Ingibjörg eftir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×