Innlent

Sjúga olíuna upp úr Grafarlæknum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá læknum í morgun þar sem starfsmenn slökkviliðsins voru með pylsurnar og freistuðu þess að sjúga olíuna upp.
Frá læknum í morgun þar sem starfsmenn slökkviliðsins voru með pylsurnar og freistuðu þess að sjúga olíuna upp. vísir/eyþór
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur í gær og í dag unnið að því að hreinsa upp olíu í Grafarlæknum í Grafarvogi með svokölluðum pylsum sem geta gripið olíu sem flýtur á vatni og sogið hana upp.

Vísir greindi fyrst frá olíumenguninni síðastliðinn föstudag. Ekki er ljóst hvaðan olían hefur komið í lækinn en í hann er leitt ofanvatn sem leitt er af plönum úr Grafarholti og Hálsahverfi.

Snorri Sigurðsson, líffræðingur á umhverfis-og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, segir að mengunin sé litin alvarlegum augum enda sé um umhverfisslys að ræða.

Þó nokkur olíumengun var sjáanleg í læknum í gær og segir Snorri ástæðuna sú að olía hafi ekki bara skolast úr regnrásinni heldur líka af gróðrinum við lækinn í rigningunni sem var í gærdag. Því sé stöðug uppspretta af olíu sem sé að berast niður í lækinn.

Snorri segir að Reykjavíkurborg vilji síður að olían endi í Grafarvoginum og því sé verið að reyna að ná henni upp með pylsunum sem slökkviliðið notar. Þær geta gripið olíu sem flýtur eins og áður segir og sogið hana upp og eiga ekki að hleypa olíu undir sig.

Það sé þó alveg ljóst að því miður hafi olía farið niður í Grafarvoginn en því meira sem borgin grípur inn í því betra. Snorri segir að því sé verið að athuga hvort hægt sé að prófa sig áfram með aðrar leiðir til að grípa olíuna eins og til dæmis hálm.


Tengdar fréttir

Olíumengun í öðrum læknum í Grafarvogi

Um er að ræða lækinn fyrir neðan Keldur en Rósa Magnúsdóttir, deildarstjóri umhverfiseftirlits hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, segir að þar hafi áður orðið vart við olíumengun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×