Fótbolti

Anna Björk: Virkilega svekkjandi að vera ekki í byrjunarliðinu

Kolbeinn Tumi Daðason í Ermelo skrifar
Anna Björk (til hægri) ásamt nöfnu sinni Söru Björk eftir leikinn í gærkvöldi.
Anna Björk (til hægri) ásamt nöfnu sinni Söru Björk eftir leikinn í gærkvöldi. Vísir/Vilhelm
Anna Björk Kristjánsdóttir viðurkennir að það hafi verið mikil vonbrigði þegar landsliðsþjálfarinn Freyr Alexandersson tilkynnti byrjunarliðið fyrir leikinn gegn Frökkum. Leikmenn fá að vita byrjunarliðið rúmum sólarhring fyrir leik og var Anna Björk ekki þeirra á meðal.

„Að sjálfsögðu var það erfitt. Maður var búinn að stefna á það lengi (að vera í byrjunarliðinu) og ég held að allir leikmenn hérna ætli sér að vera í byrjunarliði alltaf. Kannski sérstaklega ég því ég spilaði í undankeppninni,“ segir miðvörðurinn. 

Anna Björk var í lykilhlutverki í hjá landsliðinu sem tapaði aðeins einum leik í undankeppninni, gegn Skotum, og það var í eina skiptið sem liðið fékk mörk á sig í undankeppninni.

Sif Atladóttir spilaði lítið í undankeppninni og Ingibjörg Sigurðardóttir fékk tækifærið í æfingaleikjum rétt fyrir EM og nýtti það. Þær byrjuðu báðar í gær á kostnað Önnu.

„Það er samkeppni í þessum hóp og Ingibjörg stóð sig gríðarlega vel. Svo velur þjálfarinn lið sem hentar hverjum leik best.“

Hún minnir á að hópurinn telji 23 leikmenn.

„Þá verður bara að kyngja því ef maður er á bekknum. Þá er bara spurning um að hvetja liðið og gefa eins og mikla orku og hægt er. Mér fannst við gera það vel. Það er mikil samstaða í hópnum,“ segir Anna Björk sem ætlar sér sæti í liðinu.



„Þetta var virkilega svekkjandi að sjálfsögðu. Maður pirrar sig í einn til tvo klukkutíma og svo heldur maður áfram.“

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×