Íslenski boltinn

Nýr þjálfari Fram fékk meðmæli frá aðstoðarmanni Mourinhos

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rui Faria gaf nýjum þjálfara Fram meðmæli sín.
Rui Faria gaf nýjum þjálfara Fram meðmæli sín. vísir/getty
Fram hefur staðfest ráðninguna á Portúgalanum Pedro Hipólito sem næsta þjálfara karlaliðs félagsins í fótbolta.

Hipólito tekur formlega við þjálfarastarfinu hjá Fram í dag og stýrir sinni fyrstu æfingu í kvöld.

Hipólito tekur við Fram af Ásmundi Arnarssyni sem var óvænt sagt upp störfum á dögunum.

„Hipólito er með UEFA PRO réttindi og talinn einn allra efnilegasta þjálfari Portúgala. Hann er 39 ára gamall og lék á sínum tíma 52 leiki með unglingalandsliðum Portúgal og sem leikmaður Sport Lisboa e Benfica, Academica og Farense. Hipólito hefur þjálfað í Portúgal undanfarin ár, nú síðast sem aðalþjálfari Atlético,“ segir í frétt á heimasíðu Fram.

Þar einnig haft eftir Hermanni Guðmundssyni, formanni knattspyrnudeildar Fram, að Hipólito hafi fengið meðmæli frá Rui Faria, aðstoðarmanni José Mourinho hjá Manchester United.

„Við væntum mikils af Hipólito, enda fær hann afar góð meðmæli, til dæmis frá Rui Faria, aðstoðarþjálfara José Mourinho hjá Manchester United, sem sagði við okkur að hann væri einn efnilegasti þjálfari Portúgals og miklar vonir væru bundnar við hann. Það verður því spennandi að sjá handbragð hans á afar efnilegu liði Fram,“ segir Hermann í fréttatilkynningunni.

„Það var ekki auðvelt að fara í þjálfaraskipti nýverið en með þann gríðarlega efnivið sem Fram býr yfir núna fannst okkur rétt að breyta til og efla þjálfun ungu leikmannanna með því að fá þjálfara í fullt starf og Hipólito passaði við allt það sem við vildum sjá í framtíð Fram. Eftir að hafa sest niður með honum og rætt við hann var ákvörðunin um að ráða hann einföld. Hann er frábær kostur fyrir liðið og við hlökkum mikið til að sjá liðið taka framförum undir hans stjórn. Það eru skemmtilegir tímar framundan.“

Hipólito stýrir Fram í fyrsta sinn á fimmtudaginn þegar liðið fær Keflavík í heimsókn. Fram situr í 4. sæti Inkasso-deildarinnar.


Tengdar fréttir

Portúgali tekur við Fram

Portúgalinn Pedro Hipólito verður næsti þjálfari karlaliðs Fram í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×