Innlent

Íslendingar við að gefast upp á sumrinu

Jakob Bjarnar skrifar
Staðan er sú að Íslendingar margir hverjir hafa gefist upp á hinu íslenska sumri og vilja út í sólina.
Staðan er sú að Íslendingar margir hverjir hafa gefist upp á hinu íslenska sumri og vilja út í sólina.
Nú þegar dag er tekið að stytta og einn þriðji sumarsins að baki er staðan sú að Íslendingar margir hverjir hafa gefist upp á hinu íslenska sumri. Forsvarsmenn ferðaskrifstofa finna fyrir mikilli ásókn í sólarlandaferðir þegar rignir marga daga í röð. Þetta kom fram í hádegisfréttum Bylgjunnar nú um helgina.

Veðurspá er ekki kræsileg fyrir næstu daga, rok og rigning í kortunum og sækja Íslendingar nú í auknum mæli í sólarlandaferðir. Framleiðslustjóri ferðaskrifstofunnar Vita segir fólk hringja og vilja helst fara strax eftir hádegi. Meiri ásókn er í sólina nú en í fyrra. Helsta ástæðan fyrir aukinni aðsókn núna miðað við í fyrra er EM í fótbolta sem dró margan manninn til Frakklands til að fylgjast með ævintýrum íslenska landsliðsins.

Krít, Tenerife og aðrir áfangastaðir á Spáni eru vinsælir hjá Vita. Framkvæmdastjóri Heimsferða finnur einnig fyrir meiri eftirspurn. Hann segir að þegar fólk hafi verið í rigningartíð í þrjá fjóra daga og spáin ekki góð komi yfir hann holskefla. Hann hafi sannarlega fundið fyrir því undanfarna daga. Aukningin sé mikil í sumar og enn meiri í haust.

Forsvarsmenn ferðavefsins Dohop segja að bókanir í gistingu erlendis hafi aukist um fimmtíu prósent sé miðað við í fyrra sem bendir ótvírætt til þess að ferðalög séu mjög að færast í aukana meðal landsmanna. Ekki ætti neinn að þurfa að velkjast í vafa um að ástæðan er sú að fólk telur sig búa við aukinn kaupmátt auk þess sem mikil styrking íslensku krónunnar spilar þar stórt hlutverk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×