Íslenski boltinn

Bryndís Lára ósátt við landsliðsvalið: Hefur ekkert með frammistöðu að gera

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bryndís Lára hefur fengið á sig fæst mörk allra markvarða í Pepsi-deild kvenna í sumar.
Bryndís Lára hefur fengið á sig fæst mörk allra markvarða í Pepsi-deild kvenna í sumar. vísir/ernir
Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir, markvörður Þórs/KA, er ósátt með að hafa ekki verið valin í íslenska landsliðshópinn sem fer á EM í Hollandi.

Bryndís Lára gekk í raðir Þórs/KA frá ÍBV í vetur og hefur átt afar gott tímabil. Hún hefur aðeins fengið á sig fimm mörk í 11 deildarleikjum og á stóran þátt í því að Þór/KA er með sex stiga forskot á toppi Pepsi-deildar kvenna.

Þrátt fyrir góða frammistöðu í sumar hlaut Bryndís Lára ekki náð fyrir augum landsliðsþjálfarans Freys Alexanderssonar þegar hann valdi EM-hópinn.

„Ég er mikil keppnismanneskja og bölvaði mikið þann daginn. Ég lagði þetta ár upp með að byggja ofan á þann stöðugleika sem ég hef verið að vinna með síðustu ár. Góðir markverðir verða að hafa stöðugleika, þeir eiga ekki að vera hetja í einum leik og skúrkur í þeim næsta,“ segir Bryndís Lára í viðtalið við Morgunblaðið.

„Ég hef sýnt mikinn stöðugleika á þessu ári og hef bætt aðra þætti samhliða því. Ég er jarðbundin og raunsæ manneskja og með frammistöðu minni í sumar þá finnst mér ég hafa átt skilið að vera valin. Valið hafði ekkert með frammistöðu mína að gera heldur var það eitthvað allt annað og það finnst mér sorglegt.“

Bryndís Lára unir þó ákvörðun landsliðsþjálfarans.

„Freyr hefur hins vegar sagt það áður að hann velur þá leikmenn sem hann treystir hverju sinni og þá ákvörðun ber auðvitað að virða enda hefur hann náð frábærum árangri með liðið,“ segir Bryndís Lára sem er á átta manna biðlista fyrir EM.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×