Viðskipti innlent

Væntir mikils ávinnings af kaupum Vodafone á 365

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, en samkvæmt nýju virðismati telur IFS greining að gengi Vodafone verði komið í 81,1 krónu á hlut eftir tólf mánuði.
Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, en samkvæmt nýju virðismati telur IFS greining að gengi Vodafone verði komið í 81,1 krónu á hlut eftir tólf mánuði. Vísir/GVA
IFS Greining væntir mikils ávinnings af kaupum Vodafone á 365 miðlum, samkvæmt nýju virðismati, og ráðleggur fjárfestum að kaupa hlutabréf í Vodafone. Greiningarfyrirtækið telur að virðismatsgengi bréfa í Vodafone sé 72,6 krónur á hlut og að gengið verði komið í 81,1 krónu á hlut eftir tólf mánuði.

Gengi bréfanna stóð í 61,5 krónum á hlut þegar markaðir lokuðu í gær. Hækkuðu bréfin um rúm fjögur prósent í verði í viðskiptum gærdagsins, en rekja má hækkunina til umrædds virðismats IFS, sem Markaðurinn hefur undir höndum. 

Greiningarfyrirtækið gerir ráð fyrir að kaupin gangi snurðulaust fyrir sig á árinu og að samlegðaráhrifin komi fram eins og Vodafone gerir ráð fyrir í sínum bókum. IFS bendir á að tekjur sameinaðs félags séu áætlaðar um 22 milljarðar króna og að EBIDTA, þ.e. rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta, verði um 4,5 milljarðar árið 2018 og 5 milljarðar árið 2019.

Samkvæmt áætlunum stjórnenda Vodafone koma um níutíu prósent af samlegðaráhrifunum til vegna væntinga um lægri rekstrarkostnað og 600 milljóna króna sparnaðar í tæknimálum á ári. IFS telur forsendur fyrir því að samlegð náist með kaupunum, þar sem félögin séu ekki ólík í uppbyggingu. Telur IFS jafnframt að Vodafone geti notað sinn eigin viðskiptamannagrunn til krosssölu. Þó sé hætta á því að brottfall viðskiptavina aukist eftir sameininguna. 

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×