Erlent

Yfirmaður siðaskrifstofu Bandaríkjastjórnar segir af sér

Kjartan Kjartansson skrifar
Hvíta húsið hefur ítrekað farið gegn ráðleggingum siðaskrifstounnar sem Shaub hefur farið fyrir.
Hvíta húsið hefur ítrekað farið gegn ráðleggingum siðaskrifstounnar sem Shaub hefur farið fyrir. Vísir/EPA
Walter Shaub, yfirmaður siðaskrifstofu Bandaríkjastjórnar, sem hefur ítrekað staðið í stappi við ríkisstjórn Donalds Trump vegna hagsmunaáreksra, sagði af sér í dag.

„Það er ekki margt sem ég hefði getað náð fram á siðaskrifstofu ríkisstjórnarinnar við núverandi aðstæður. Nýleg reynsla skrifstofunnar gerir það klárt að styrkja þarf siðferðiseftirlit,“ sagði Shaub sem var skipaður af Barack Obama, fyrrverandi forseta.

Fimm ára starfstímabili Schaub lýkur ekki fyrr en í janúar en hann vísaði til þess að hann ætti litla möguleika á að halda áfram í embættinu og að hann hefði fengið gott atvinnutilboð samkvæmt frétt New York Times.

Hunsuðu tilmæli siðaskrifstofunnar

Siðaskrifstofunni var komið á fót eftir Watergate-hneykslið en markmiðið með henni var að hjálpa kjörnum fulltrúum að forðast hagsmunaárekstra.

Shaub hafði þrýst á Trump opinberlega að selja eigur sínar og losa sig við eignarhluti áður en hann tæki við embætti forseta. Trump tók þeim ráðleggingum hins vegar ekki. Synir hans tveir reka nú viðskiptaveldi hans.

Hann lagði einnig til að Hvíta húsið beitti Kellyanne Conway, ráðgjafa Trump, viðurlögum eftir að hún auglýsti vörur Ivönku Trump, dóttur forsetans, í sjónvarpsviðtali. Hvíta húsið aðhafðist hins vegar ekkert.

Hvíta húsið hefur einnig vefengt lagaheimild siðaskrifstofunnar til að óska eftir gögnum þegar Shaub krafðist afrita af undanþágum sem Hvíta húsið veitti starfsmönnum sem það réði til starfa fyrir ríkisstjórnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×