Íslenski boltinn

Ejub: Höfum oft átt góða leiki gegn FH

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. vísir/ernir
Ejub Purisevic, þjálfari Víkings Ó., var að vonum kampakátur eftir sigur hans manna á Íslandsmeisturum FH í Kaplakrika í kvöld. Þetta var þriðji leikur FH og Víkings í Krikanum í efstu deild og Ólsarar hafa ekki enn tapað á þessum sterka heimavelli meistaranna.

„Við höfum oft átt góða leiki gegn FH hérna. Umgjörðin skapar kannski stemmningu. Þetta var frábær leikur. Við vorum vel skipulagðir og alltaf inni í leiknum,“ sagði Ejub eftir leik.

„Það gekk nokkurn veginn allt upp. Við vorum agaðir, skipulagðir og lokuðum á það sem skapar hættu. Rosalega margir voru einbeittir allan tímann í kvöld. Á móti svona liði þarf meira og minna allt að ganga upp til að vinna,“ bætti Ejub við.

Varnarleikur Ólsara var virkilega öflugur í leiknum í kvöld og FH-ingar fengu ekki mörg opin færi.

„Við gerðum ráð fyrir því að FH yrði meira með boltann og það kom okkur ekki á óvart. En við náðum að loka á þá og gáfum þeim lítinn tíma þegar þeir komu inn á okkar vallarhelming. Þeir sköpuðu sér ekki mörg færi,“ sagði Ejub.

Allir þrír sigrar Víkings í sumar hafa komið gegn liðum í efstu fjórum sætum Pepsi-deildarinnar. Kann Ejub einhverja skýringu á þessu góða gengi gegn sterkustu liðum deildarinnar?

„Þú reynir alltaf að skipuleggja liðið en svo eru hlutir sem þú ræður ekki við. Síðasti leikur gegn Víkingi R. var nákvæmlega eins skipulagður og þessi en svo gerðum við mistök. Vissulega skipulegg ég leikina gegn sterkustu liðunum aðeins öðruvísi en það er ekki mikill munur,“ sagði Ejub að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×