Innlent

Viðrar eins til útilegu um allt land eina stærstu ferðahelgi ársins

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Fyrsta helgin í júlí er iðulega mikil útileguhelgi.
Fyrsta helgin í júlí er iðulega mikil útileguhelgi. Vísir/Andri marínó
Fyrsta helgin í júlí er nú framundan, sem jafnan er ein stærsta ferðahelgi ársins, og gera má ráð fyrir að Reykvíkingar haldi því út fyrir borgarmörkin. Veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir veður verða með svipuðu móti á öllum landshlutum.

„Það er enginn einn staður sem er eitthvað betri en annar,“ segir Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands þegar hún er innt eftir því hvar besta veðrið verði á landinu um helgina.

„Norðausturlandið verður kannski betra í dag og svo verður kannski betra að vera sunnar á landinu á morgun og hinn.“

Hún segir ekki von á neinum öfgum í veðri heldur verði milt víðast hvar á landinu um helgina

„Það verður fremur skýjað og svo má búast við skúrum í flestum landshlutum, hvergi þurrt en ekki heldur hellirigning,“ segir Helga. Hún segir að landsmenn muni helst finna fyrir kulda út með sjó.

„Það verður fremur milt í veðri, hægur vindur og einna hlýjast inn til landsins.“

Veður hefur verið svalt það sem af er sumri en Íslendingar hafa eflaust fundið fyrir kuldapollinum yfir landinu það sem af er júnímánuði. Trausti Jónsson veðurfræðingur sagði enn fremur í bloggfærslu sinni í gær að von sé á áframhaldandi svala – þó án alvarlegra illviðra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×