Innlent

Öllu starfsfólki Neytendasamtakanna sagt upp

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ólafur Arnarson er formaður Neytendasamtakanna.
Ólafur Arnarson er formaður Neytendasamtakanna.
Stjórn Neytendasamtakanna hefur ákveðið að segja upp öllu starfsfólki. Í stuttri yfirlýsingu á vef samtakanna segir að þessi aðgerð sé „liður í endurskipulagningu og endurfjármögnun samtakanna. Vonast er til að starfsfólk verði endurráðið áður en uppsagnarfrestur rennur út.“

Mikil ólga hefur verið í stjórn samtakanna undanfarið og samþykkti stjórnin til að mynda vantraustsyfirlýsingu á formanninn, Ólaf Arnarson, í byrjun maí. Á svipuðum tíma var ráðningarsamningi Ólafs sagt upp en hann starfaði sem framkvæmdastjóri samtakanna.

Ólafur var kosinn formaður Neytendasamtakanna á þingi þeirra í október síðastliðnum. Næsta þing er fyrirhugað haustið 2018.

Neytendasamtökin eru frjáls félagasamtök og allir sem eru orðnir 18 ára geta orðið félagar og notið fullra félagslegra réttinda. Um 8.200 manns eru í samtökunum og er árgjaldið 5.500 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×