Innlent

Fáránlega góður gítarleikari kveður

Jakob Bjarnar skrifar
Tónlistarbransinn grætur nú Gulla Falk gítarhetju sem fallinn er frá eftir baráttu við krabbamein.
Tónlistarbransinn grætur nú Gulla Falk gítarhetju sem fallinn er frá eftir baráttu við krabbamein.
Guðlaugur Falk gítarleikari er látinn eftir erfiða baráttu við krabbamein. Guðlaugur var ekki meðal þekktari tónlistarmanna Íslands, en hins vegar í hávegum hafður meðal tónlistarmanna og þeirra sem fylgjast grannt með í heimi þungarokksins. Hann var goðsögn á þeim vettvangi – sannkölluð gítarhetja. Hann var meðal annars í hljómsveitinni Exizt. Og hér er lagið Stars Edge sem gefur góða tilfinningu fyrir því hvers konar tónlistarmaður Gulli Falk var.

„Ég get orðið leiður á að hlusta á rokk en ekki að spila það. Eiginlega er ekki hægt að lýsa þeirri tilfinningu sem um mann streymir þegar maður spilar rokk, samt er það þessi kraftur sem er svo heillandi og gítarleikararnir njóta sín vel og ég er náttúrlega gítarleikari,“ sagði Guðlaugur Falk í viðtali við Vikuna árið 1992.

Fyrir um ári efndu vinir hans og aðdáendur til söfnunar vegna veikinda hans. En, nú hefur maðurinn með ljáinn lagt tónlistarmanninn. Honum verður best lýst með orðum vina hans og kollega sem nú syrgja mikils metinn mann úr sínum röðum. Meðal þeirra sem hafa minnst Gulla Falk er Ingo H. Geirdal í Dimmu sem skrifar pistil á Facebooksíðu sína um þennan vin sinn, sem var einkar vel liðinn.

„Guðlaugur Falk vinur minn kvaddi í gær eftir erfiða baráttu við krabbamein. Hann var einstakt ljúfmenni, dugnaðarforkur og mikill músíkant. Gulli var alvöru gítarhetja af gamla skólanum og lunkinn lagahöfundur sem var samkvæmur sjálfum sér og var mér og mörgum öðrum sem fetað hafa sömu slóð í þungarokkinu mikil fyrirmynd. Gulli gafst aldrei upp þó á móti blési og æðruleysi hans, jákvæðni og trú var aðdáunarverð. Hann var sannur vinur vina sinna og óspar á að styðja þá og hrósa fyrir það sem honum fannst vel gert.

Ingó Geirdal mundar gítarinn. Hann kveður nú vin sinn í rokkinu.
Ég var svo heppinn að kynnast Gulla þegar ég var að stíga mín fyrstu spor í tónlistinni fyrir rúmum 30 árum síðan og hann var einn af þeim fyrstu til að hrósa mér fyrir gítarleikinn, leiðbeina og hvetja mig áfram.  Við lékum saman á nokkrum tónleikum og það var engu líkara en Gulli og gítarinn væru eitt, slík var tilfinningin og tónarnir sem bárust úr hljóðfærinu. Á þeim tíma var tveggja hálsa Ibanez SG hans aðalsmerki og 12 strengja sándið fannst mér alltaf unaðslegt. Það gladdi mig því mjög að geta fengið að nota þennan gítar á tveimur síðustu Dimmu plötunum til að heiðra meistarann vin minn. Gulla þótti vænt um að heyra það enda áttum við alltaf stuðning hans vísan. Hans síðustu orð við mig og Silla bróður þegar við heimsóttum hann á líknardeild fyrr í mánuðinum voru „Ég elska ykkur“. Sömuleiðis kæri vinur! Minning þín og músík mun svo sannarlega lifa áfram.“

Sjálfum sér samkvæmur

Annar sem nefnir að Guðlaugur Falk hafi verið umfram allt sjálfum sér samkvæmur, er Richard Scobie úr Rickshaw.

Matthías Matthíasson. Tónlistarmennirnir sem nú minnast Gulla Falk koma úr öllum áttum.
„Það voru mikil forréttindi að hafa fengið að kynnast Gulla Falk og kallað hann vin. Ljúfari dreng var vart hægt að finna - sjálfum sér samkvæmur og gítar snillingur mikill. Þín verður sárt saknað minn kæri - þú varst alveg einstakur. Samúðar kveðjur til allra vina og ættingja. „Kaffi Ole!““

Matthías Matthíasson söngvari er enn einn sem minnist gítarhetjunnar miklu.

„Takk fyrir mig elsku Gulli Falk... ég var svo stoltur að fá að spila fyrir þig á styrktartónleikunum þínum ... stalst til að taka þessa mynd af Kramer - num þínum... þið voruð eitt ;) ... Ég á heila plötu af demóum sem við gerðum saman... vona að einn daginn klárum við hana :) ... hvíldu í friði elsku vinur, sannari rokkari er vandfundinn... Love. Matti“

Einstaklega jákvæður og ljúfur

Sigurgeir Sigmundsson gítarleikari hefur þessi orð um Guðlaug Falk:

„Sárt að sjá hæfileikamann hrifsaðan af velli í blóma lífsins. Guðlaugur Falk var frábær orginal rokkgítarleikari og lagasmiður. Hann stóð sína vakt til enda trúr sjálfum sér og tónlistinni. Nú mun tónlistin taka við og halda nafni hans á lofti um ókomna framtíð. Hvíldu í friði kæri Gulli.“

Regína greinir frá því að Gulli Falk hafi verið alveg einstaklega uppörvandi og jákvæður.
Söngkonan Regína Ósk greinir frá kynnum sínum og gítarhetjunnar.

Hvíl í friði Guðlaugur Falk. Árið 1998 söng ég tvö lög fyrir hann inná plötuna "Going to Paris" þá 21. árs og hafði nú ekki mikið sungið í stúdíói. Hann var svo jákvæður og hvetjandi fyrir óreynda söngkonuna :)  Læt fylgja textabrot eftir Gulla úr einu laginu : "What happens when we die? Will we travel to the sky? has anybody really been there? Wouldn't we like to know?" Sendi innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu hans.“

Einn okkar flottasti og frumlegasti gítarleikari

Tónlistarmennirnir sem tala hlýlega um Guðlaug Falk eru úr öllum áttum. Einn þeirra er Rúnar Þór tónlistarmaður og útvarpsmaður á Útvarpi Sögu:

„Einn okkar frumlegasti og flottasti gítarleikari Guðlaugur Falk er farinn á vit feðranna. Ég kynntist Gulla 1983 minnir mig og alltaf var hann ,einlægur,ljúfur og brosmildur, hér er mynd af okkur sem tekiin var þegar hann kom með tónlistina sína i þáttinn minn Slappaðu af,,,,farðu i friði vinur, ég mun sakna þín það sem eftir er. Ég spila þáttinn hans fljótlega i minningu góðs vinar."

Pálmi Sigurhjartarson hljómborðsleikari á einnig nokkur falleg orð um Guðlaug Falk:

„Góður drengur og félagi Guðlaugur Falk hefur kvatt okkur. Við kynntumst fyrir mörgum árum þegar ég var að stíga fyrstu skrefin en hann þá orðinn gítarhetja . Svo leið tíminn og menn fóru sínar leiðir í listinni en aldrei slitnaði strengurinn enda eðaldrengur á ferð, og var mér alltaf ljúft og skylt að spila inná hans plötur.

Pálmi segir Guðlaug Falk hafa verið góðan dreng og sannkallaða gítarhetju.
Nú síðast fyrir rúmum mánuði þar sem gítarhetjan var mætt en lá reyndar í sófanum í Studio Paradis umkringdur vinum og fjölskyldu og skilaboðin voru „hafðu bara gaman og spilaðu" eftirminnilegasta session sem ég tekið þátt í þar sem „búgí vúgi" að hætti Gulla Falk varð til. Hvíldu í friði kæri vinur.“

Inspírerandi karakter og góður gaur

Trymbillinn Egill Örn Rafnsson hefur þetta fram að færa um kynni sín af Guðlaugi Falk:

„Ég var þess heiðurs aðnjótandi að fá að vinna svoldið með Gulla Falk, sem því miður kvaddi okkur í dag. Hann var mjög inspirandi karakter, jákvæður og góður gaur, eins góður og þeir gerast. Hann hafði alltaf pínu áhyggjur af því að ég hækkaði ekki nóg í sólóunum hans þegar ég var að mixa fyrir hann, en við enduðum alltaf á því að vera báðir ánægðir, með sólóin komin vel yfir 11. Hann var 11! Takk kærlega fyrir allt, og góða ferð. Kaffi Ole!“

Einar Þór Jóhannsson gítarleikari kastar kveðju á kollega sinn:

„Hvíldu í friði vinur minn! Er að hlusta á þetta lag aftur og aftur núna, ég vissi ekki að það væru til gítarleikarar af þessu kaliberi á Íslandi, svo heyrði ég þetta lag!! Takk fyrir giggin sem Exist og Túrbó spiluðu saman back in the day og takk fyrir að leyfa mér að plögga í Marshallinn þinn og takk fyrir vináttuna.“

Hinn einstaki Gulli Falk

Þeir eru fjölmargir aðrir sem hafa falleg orð um Guðlaug Falk á Facebook en við látum Flosa Þorgeirsson gítarleikara eiga lokaorðið í þessari samantekt:



Flosi segir að Gulli Falk hafi verið elskaður og virtur.
„Þá er hinn einstaki Gulli Falk fallinn frá. Við kynntumst fyrst er ég var ca. 19-20 ára en þá hringdi hann í mig og bauð mér bassaleikarastöðuna í Exist. Ég fór á nokkrar æfingar en fann svo að þetta var ekki fyrir mig, ýmissa hluta vegna. Ég tjáði Gulla það og hann var afar ósáttur við það. Sagðist nú loksins hafa fundið bassaleikara sem hann gæti spilað með. Hann vildi að bassaleikarinn væri aggressívur og fingrafimur því það myndi veita honum aðhald á gítarinn. Sjálfur var Gulli alveg fáránlega góður gítarleikari, með einstaka tækni. Við töluðum oft um að spila meira saman en af því varð þó ekki. Hann átti þó að lokum eftir að finna bassaleikarann sinn þar sem var meistari Magnús Halldór Pálsson, einn flinkasti bassaleikari landsins og þó víðar væri leitað. Alltaf var gaman að hitta Gulla og ég veit ekki neinn mann sem nokkurn tíma talaði til hans styggðaryrði, þvert á móti var hann elskaður og virtur. Manni fannst oft að hann ætti meiri velgengi skilið en hann fór sínar eigin leiðir og gerði það frábærlega sem hann tók sér fyrir hendur. Íslenskur rokkheimur er í sorg. Hvíl í friði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×