Lífið

Íslenskur forritari lék á Mark Hamill

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mark Hamill er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Logi geimgengill, eða Luke Skywalker, í Stjörnustríðskvikmyndunum.
Mark Hamill er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Logi geimgengill, eða Luke Skywalker, í Stjörnustríðskvikmyndunum. Vísir/getty
Stjörnustríðs-leikarinn Mark Hamill, sem fer með hlutverk Loga geimgengils í kvikmyndunum, varð bylt við þegar mótspilari hans í tölvuleik á netinu tók á sig mynd Svarthöfða, föður persónu Hamill í kvikmyndunum. Íslenskur framleiðandi leiksins stóð að baki hrekknum.

Hamill vakti athygli á atvikinu á Twitter-síðu sinni í vikunni er hann sýndi fylgjendum sínum mynd af Yahtzee-viðureign sinni við Svarthöfða, sem er faðir persónu Hamill, Loga geimgengils, í Stjörnustríðskvikmyndunum.

„Fór að spila Yahtzee í morgun og ÞETTA gerðist!“ skrifaði Hamill og lét myllumerkið #StillDuelingDarthVader, eða #BerstEnnViðSvarthöfða, fylgja.

Einar Egilsson, íslenskur forritari og framleiðandi tölvuleiksins Yahtzee, greindi þó frá því að hann bæri sjálfur ábyrgð á atvikinu. Í færslu á síðu sinni segir Einar að vinur sinn hafi bent honum á það fyrir nokkru að Mark Hamill spilaði Yahtzee reglulega. Hann ákvað því að koma því þannig fyrir að í hvert sinn sem spilari með notendamynd Hamill, stúlku með gleraugu, skráði sig inn í leikinn tæki andstæðingurinn á sig mynd Svarthöfða og nafnið „Dad“ eða „pabbi“.

Þá bætti Einar um betur en þegar Hamill fékk „jatsí“ í leiknum birtust skilaboð á skjánum sem aðdáendur Stjörnustríðs ættu allir að þekkja: „The Force is strong with you.“

Næsta kvikmyndin í Stjörnustríðs-seríunni, Star Wars: Episode VIII The Last Jedi, er væntanleg í kvikmyndahús í desember á þessu ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×