Enski boltinn

Jenkins um Gylfa: „Áskorun fyrir öll lið að halda sínum bestu mönnum“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi skoraði níu mörk og gaf 13 stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.
Gylfi skoraði níu mörk og gaf 13 stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson er eftirsóttur af liðum í ensku úrvalsdeildinni eftir frábært tímabil með Swansea þar sem hann var aðra leiktíðina í röð langbesti leikmaður liðsins.

Gylfi er þrálátlega orðaður við brottför frá félaginu en Everton er hvað líklegast til að kaupa íslenska landsliðsmanninn. Swansea hefur aftur á móti engan áhuga á að selja hann og mun setja alvöru verðmiða á miðjumanninn.

„Þetta er áskorun fyrir okkur. Það er áskorun fyrir öll lið að halda sínum bestu mönnum. Við höfum aldrei reynt að selja okkar bestu menn og við erum ekki að fara að byrja á því núna,“ segir Huw Jenkins, stjórnarformaður Swansea, í viðtali við Daily Mirror.

„Það er eðlilegt að Gylfi sé eftirsóttur eftir tímabilið þar sem hann var að skora og leggja upp mörk. Það eru alltaf eitt til tvö lið sem skoða leikmennina okkar. Þannig er úrvalsdeildin og við verðum bara að sætta okkur við það.“

„Það er stórt sumar framundan hjá Paul Clement [knattspyrnustjóra Swansea]. Það besta í stöðunni væri ef Gylfi spilar fyrsta leik tímabilsins fyrir okkur. Ég hef allavega engin tilboð fengið í Gylfa og engar alvöru viðræður eru hafnar,“ segir Huw Jenkins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×