Lífið

Malavískt eðalrapp á KEX

Stefán Árni Pálsson skrifar
Tay Grin kemur fram.
Tay Grin kemur fram.
Malavíski rapparinn og HeForShe leiðtoginn Tay Grin kemur fram á styrktartónleikum ungmennaráðs UN Women á Íslandi miðvikudagskvöldið 21. júní á Kex ásamt tónlistarkonunni Hildi og rapparanum Tiny.

Viðburðurinn nýtur stuðnings breska sendiráðsins og ICEIDA, alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands.

Tónleikagestum verður einnig veitt innsýn í líf stúlkna og kvenna í Malaví og þeim áskorunum sem þær standa frammi fyrir.

Hátt brottfall stúlkna úr námi í Malaví má að hluta til rekja til tíðablæðinga og skorts á dömubindum. Malavískar stúlkur hafa takmarkaðan aðgang að dömubindum og öðrum hreinlætisvörum tengdar tíðablæðingum. Algengt er því að stúlkur mæti ekki í skólann og haldi sig heima fyrir  meðan á blæðingum stendur.

Stúlkur sem missa mánaðarlega nokkra daga úr skóla eru líklegri til að hætta námi varanlega. Þar sem stúlkurnar hljóta ekki grunnmenntun aukast líkurnar á að þær verði giftar barnungar eldri mönnum og verða þar með berskjaldaðri fyrir ofbeldi, fátækt og mæðradauða. Því yngri sem þær eru giftar því líklegra er að þær eignist börn á barnsaldri en lífshættulegir fylgikvillar fylgja meðgöngu og fæðingum ungra mæðra.

Með því að mæta á tónleikana á Kex gefst almenningi kostur á að styðja við kaup á fjölnota dömubindum fyrir malavískar skólastúlkur  og upplifa um leið malavískt eðalrapp frá vinsælasta hip hop listamanni landsins.

Ekkert kostar inn á tónleikana en fólki er boðið að styrkja verkefnið um 1000 kr. sem jafngildir einum pakka af bindum fyrir eina stúlku.

Dagskráin hefst klukkan 19:30 og stendur yfir til klukkan 22. 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×