Enski boltinn

Salah færist nær Liverpool

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mohamed Salah endar líklega í Liverpool.
Mohamed Salah endar líklega í Liverpool. vísir/getty
Liverpool færist nær því að landa egypska landsliðsmanninum Mohamed Salah frá Roma samkvæmt heimildum Sky Sports en samningaviðræður Liverpool og Roma hafa staðið yfir í nokkrar vikur.

Salah er nú þegar búinn að semja um kaup og kjör við Liverpool og er talinn fá fimm ára samning og 90.000 pund í vikulaun. Roma hafnaði nýverið 28 milljóna punda tilboði Liverpool í Salah en félögin virðast færast nær því að ná samkomulagi.

Roma vill fá 35 milljónir punda fyrir leikmanninn og halda aðrir enskir miðlar því fram að með árangurstengdum greiðslum gæti kaupverðið endað í 39 milljónum punda.

Egyptinn yrði með því dýrasti leikmaður í sögu Liverpool en Andy Carroll á enn þá metið. Enski framherjinn var keyptur á 35 milljónir frá Newcastle um árið en náði aldrei að slá í gegn á Anfield.

Mohamed Salah, sem er 24 ára gamall, var ekki langt frá því að ganga í raðir Liverpool árið 2014 þegar Brendan Rodgers stýrði liðinu en Chelsea stakk þá undan þeim og keypti framherjann á ellefu milljónir punda.

Salah komst aldrei í gang hjá Chelsea og fékk fá tækifæri. Hann fór á láni til Fiorentina og svo til Roma þar sem hann fékk svo samning í ágúst í fyrra. Hann var byrjunarliðsmaður í frábæru liði Roma sem setti persónulegt stigamet í ítölsku A-deildinni í vetur en Egyptinn skoraði fimmtán mörk í 31 leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×