Viðskipti innlent

Hafnar okurtali um Bónus og segir Þórarinn kasta steinum úr glerhúsi

Haraldur Guðmundsson skrifar
Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir ekki stefnt að kaupum á fyrirtækjum í óskyldum rekstri eða eignum erlendis.
Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir ekki stefnt að kaupum á fyrirtækjum í óskyldum rekstri eða eignum erlendis.
Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir umræðu um að Bónus hafi okrað á neytendum vera ósanngjarna og innistæðulausa og að álagning á matvöru sé hvergi lægri. Gagnrýni framkvæmdastjóra IKEA og formanns Neytendasamtakanna á verslunarrekstur Haga, í kjölfar opnunar Costco í Garðabæ, standist ekki skoðun. Vöruverð hafi einfaldlega lækkað vegna styrkingar krónunnar og betri samninga við erlenda birgja en ekki vegna þess að koma og miklar vinsældir bandaríska verslunarrisans hafi sparkað duglega í rassinn á stjórnendum fyrirtækisins.

„Á milli maímánaða 2016 og 2017 hefur allur innflutningur okkar lækkað um ellefu prósent vegna styrkingar krónunnar og við erum að gera betri innkaup í mörgum vöruflokkum. Þessum ávinningi hefur verið skilað til viðskiptavina okkar. Umræðan um verð og álagningu hefur verið mikil en ég held að það sé ljóst að ef tölulegar staðreyndir eru skoðaðar getum við staðið mjög keik,“ segir Finnur. Forstjórinn sýnir blaðamanni tölur yfir þróun framlegðar Haga síðastliðin níu ár. Samkvæmt þeim hefur framlegðin, tekjur að frádregnum breytilegum kostnaði, verið á bilinu 24 og 25 prósent allt tímabilið.

„Rakalausar upphrópanir“

Þannig að þú fullyrðir að lækkun vöruverðs í ákveðnum vöruflokkum í verslunum Bónuss síðustu vikur og mánuði megi eingöngu rekja til styrkingar krónunnar og betri samninga við erlenda birgja en ekki aukinnar samkeppni?

„Já, það er rétt. Hér er ég með tölur sem sýna sögulega framlegð Haga. Hún er stöðug og hefur ekki verið að hækka. Við erum á hverju ári sökuð um að skila ekki styrkingu á gengi. Það hafa verið skattbreytingar, sykurskattur, breyting á virðisaukaskatti og vörugjöld fallið niður, en við erum á sömu prósentutölunni í framlegð allan þennan tíma, sem staðfestir að innkaupsverð og útsöluverð haldast í hendur. Þetta hentar hins vegar ekki í umræðuna, það er svo einfalt,“ segir Finnur.

„Við reynum að gera betur í innkaupum en ég hef sagt það áður að Ísland þarf að kaupa betur inn. Við erum ennþá á vissan hátt dönsk nýlenda því Danir eru með umboð fyrir fjöldann allan af vörum og þjónustu, ekki bara matvöru, og það að við séum að kaupa í gegnum Danmörku vörur frá bandarískum eða breskum fyrirtækjum þýðir að það er verið að skattleggja vörur með umboðslaunum, sem renna til Dana eða annarra Skandinavíuþjóða. Okkar hlutverk hjá Högum er og hefur verið að kaupa betur inn og ég held að okkur hafi tekist það ágætlega þó við eigum sannarlega mikið verk fyrir höndum að ná enn betri árangri á því sviði,“ segir Finnur og bætir við að lítið sem ekkert hafi komið fyrirtækinu á óvart varðandi komu Costco, enda hafi stjórnendur þess verið vel undirbúnir, nema þá kannski ummæli sem fallið hafi um íslenska verslun.

„Ég tel að umræðan sé ósanngjörn og það hjálpar ekki þegar menn sem kasta steinum úr glerhúsi, eins og framkvæmdastjóri IKEA [Þórarinn Ævarsson], tala niður íslenska verslun með rakalausum upphrópunum. Alhæfingar á þessu sviði eru ekki sanngjarnar, né réttar. Ég held að margt í íslenskri verslun sé mjög gott og margir að leggja sig fram við að standa sig. Við erum til að mynda að fækka hér verslunarfermetrum og loka tískuverslunum og það er ekki til marks um að afkoman hafi verið góð. Það er erfitt að reka verslanir á Íslandi á mörgum sviðum enda lítill markaður og kostnaður mikill. Það eru margir geirar í íslenskri verslun sem eru með þeim hætti að það eru ekki sömu rekstrarskilyrði og utan landsteinanna. Innistæðulausar fullyrðingar og árásir á verslunina í heild eru ekki að hjálpa til,“ segir Finnur og heldur áfram:

„Hér hefur hvað mestur hávaði verið í framkvæmdastjóra IKEA sem rekur alþjóðlegt verslunarfyrirtæki á Íslandi. Í síðustu viku komu fram fréttir af hans eigin rekstri. Hann rekur eina verslun og er með öll sín innkaup á sama stað og þarf 48 prósenta framlegð í sinn rekstur. Þetta opinberar þá staðreynd að IKEA á Íslandi þarf tvöfalda álagningu Haga til að reka þessa einu verslun sína og þar með þrefalda álagningu Bónuss. IKEA á Íslandi er tugum prósenta dýrari en IKEA verslanir nágrannalandanna sem bjóða nákvæmlega sömu vöru og seld er hér. Hver skyldi vera skýringin á því? Hagar reka yfir 50 verslanir og umfangsmikla vöruhúsastarfsemi og bjóða sama verð um land allt. Ég held því fram að það sé ekkert verslunarfyrirtæki á Íslandi rekið á jafn lágri álagningu og Bónus og Bónus hefur verið rekið þannig frá upphafi. Það hefur sýnt sig í öllum þessum ólgusjó sem er í gangi að það er ekki hægt að benda á neitt sem stendur upp á Bónus í þeirri umræðu. Í alþjóðlegum samanburði er álagning Bónuss með því lægsta sem þekkist.“

Ákváðu erlendir birgjar þá að lækka verð sín einungis vegna komu Costco?

„Í einhverjum tilfellum hafa erlendir birgjar og stórir framleiðendur endurmetið Ísland. Það er ljóst að Ísland hefur í augum þessara aðila verið skilgreint sem hátekjusvæði og þeir hafa verðlagt vörur sínar til landsins í samræmi við það. Við höfum í mörgum tilfellum keypt vörur beint að utan þar sem okkur finnst ekki boðlegt að þær séu seldar á því verði sem stendur okkur til boða í gegnum heildsala. Í mörgum tilfellum erum við að sækja þessar vörur beint út og náum árangri þannig að verðið lækkar. Í öðrum náum við því ekki en ég er klár á því að með þessu breytta samkeppnisumhverfi fær Ísland annan verðflokk. Sumir hafa tekið tillit til þess og aðrir ekki. Það er okkar verk að vinna að því að innkaupsverðin verði enn lægri.“

Margt komið á óvart

Ljóst er að forstjórinn er mjög ósáttur við ýmis ummæli sem fallið hafa síðustu vikur, bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum, um að innlendir smásalar á borð við Bónus og Krónuna hafi okrað á almenningi. Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna, sagði í samtali við fréttastofu RÚV í síðustu viku að niðurstöður verðkönnunar ASÍ, um að vörukarfan sé dýrari í Costco en Bónus, hafi ekki komið honum á óvart þar sem Costco selji gæða merkjavöru. Sagði Ólafur að ef borin yrði saman merkjavara myndi hann ætla að önnur niðurstaða fengist.

„Mér finnst einnig mjög sérstakt að í fyrsta sinn stígur formaður Neytendasamtakanna fram og tekur einarða afstöðu með einum aðila á markaði. Nú er formaður Neytendasamtakanna að skrifa sögu Jóhannesar í Bónuss og hefur verið að því í nokkur ár. Hann þekkir því mjög vel fyrir hvað Jóhannes stóð og fyrir hvað Bónus stendur. Það ættu því að vera hæg heimatökin að mínu viti að afla sér upplýsinga um hvernig Bónus vinnur og það er gjörsamlega út í hött að þessi maður, sem að auki er formaður Neytendasamtakanna, komi Costco af einhverjum ástæðum til varnar og haldi því fram að Jóhannes í Bónus hafi verið að blekkja neytendur eða viðskiptavini fyrirtækisins. Hann veit auðvitað betur en velur samt að taka til máls með þessum hætti.

Fyrstu ummæli hans voru þau eftir að hann hafði heimsótt nýjan aðila á markaði að víða væri pottur brotinn í íslenskri verslun og að honum sýndist að verðið þarna væri miklu lægra en hann hefði búist við. Síðan kom könnun RÚV um að Bónus væri ódýrasti valkosturinn á Íslandi og þá sagði þessi sami maður að það kæmi sér ekki á óvart að Bónus væri ennþá ódýrasti valkosturinn, þar sem hinir væru að selja hágæðavöru. Daginn eftir hélt hann því fram að könnun RÚV væri blekking. Ég trúi ekki að ég sé einn um að finnast þessi málflutningur sérstakur,“ segir Finnur.

„Að tala um okur í Bónus er álíka rugl og að halda því fram að jólin séu í júlí.“

Hvernig hefur þín persónulega upplifun af opnun Costco verið?

„Ég held að það sem upp úr stendur sé að Bónus býður lægra verð en þessi risi. Það er stóra fréttin. Við erum mjög stolt af því að vera með félagið á þeim stað. Það má vel vera að það henti ekki umræðunni að Bónus hafi staðið sig svona vel en verslunin er að selja vörur í 32 verslunum um allt land og á sama verði. Auðvitað er það staðreynd að þegar Bónus kom á markaðinn var það mesta kjarabót sem heimilin fengu á þeim tíma. Vöruverð lækkaði um einhver 30-40 prósent á landsbyggðinni með opnun þar. Við erum enn að vinna á þessum sömu nótum og skila þannig þessari kjarabót til okkar viðskiptavina dag frá degi. Það er það sem ég er stoltur af í dag.“

Að mínu mati er ósanngjörn umræða í gangi og við verðum að taka henni eins og hún kemur fyrir. Fullyrðingar í okkar garð eru innistæðulausar. Bónus er rekið á lágmarksálagningu og stenst allan samanburð þegar kemur að verðum.

Sumar fréttir hafa komið mér meira á óvart en aðrar. Umfjöllun fjölmiðla er á þeim nótum sem hún er og ég geri ekki athugasemdir við það. Ég geri aftur á móti athugasemdir ef rangt er farið með og við höfum gert það. Ég var til dæmis sakaður um að vera að hóta birgjum og ég stappaði niður fótum,“ segir Finnur og vísar í frétt Viðskiptablaðsins þann 1. júní. Þar var fullyrt að Hagar hefðu hótað nokkrum íslenskum framleiðendum því að ef þeir hygðust selja vörur sínar í Costco yrðu þær teknar úr hillum verslana Bónuss.

„Þær ásakanir voru gjörsamlega út í hött enda mun ég aldrei beita og hef aldrei beitt þeim aðferðum sem ég var sakaður um í þeirri umfjöllun,“ segir Finnur, en réttt er að taka fram að Viðskiptablaðið hefur staðið við fréttaflutning sinn.

Finnur Árnason segir Bónus standast allan verðsamanburð. Fréttablaðið/GVA
Loka fataverslunum

Finnur segist aldrei áður hafa upplifað aðra eins umbreytingatíma í íslenskri verslun. Hagar hafi fækkað verslunarfermetrum sínum um 20 prósent á rúmu ári og dregið úr áherslu á fatnað og sérvöru. Markaðurinn greindi í byrjun mars frá ákvörðun fyrirtækisins um að loka fataversluninni Dorothy Perkins í Smáralind og að Hagar myndu því loka fjórum tískuvöruverslunum á þessu ári til viðbótar við þrjár í fyrra. Forstjórinn staðfestir að verslunarfyrirtækið ætli nú einnig að hætta rekstri Karen Millen í Kringlunni og þá einungis reka fataverslanir Útilífs og Zöru.

„Ég hef upplifað miklar breytingar í verslun og þá til dæmis opnun Kringlunnar og Smáralindar en ég held að þetta sé mesta umbreytingaár í verslun sem ég hef lifað. Við erum að horfa á fyrirtæki koma hér inn á markaðinn sem eru með margfalda landsframleiðslu Íslands og eru meðal annars að selja vörur undir kostnaðarverði. Á sama tíma er aukin netverslun og breyttir neysluhættir hjá yngri kynslóðinni sem gera það að verkum að margir markaðir eru á fleygiferð. Það er áskorun fyrir þá sem eru í verslun að takast á við þessar breytingar. Samkeppnisumhverfið er breytt og íslensk fyrirtæki þurfa að verða enn sterkari til þess að geta tekist á við þetta nýja umhverfi.

Undanfarin misseri og ár höfum við verið að fylgjast með og lagt áherslu á að búa okkur undir aukna samkeppni. Það kom fram á aðalfundi okkar í maí að við fækkuðum verslunarfermetrum á síðasta rekstrarári um tæplega 20 þúsund. Fataverslun er með þeim hætti að meira en önnur hver flík er keypt í útlöndum og sá markaður hefur átt undir högg að sækja frá hruni og er ekki farinn að rétta sig af. Við höfum því minnkað áhersluna á sérvöru og erum núna að reka tvær verslanir Útilífs og Zöru en höfum fækkað tískuvöruverslunum og lokuðum Útilíf í Glæsibæ. Það eru miklar breytingar og margt að gerast.

Í Smáralind, þar sem við vorum að minnka Hagkaup um nánast helming, erum við að ná nánast sömu sölu. Það er umtalsverð hagræðing sem felst í því að fækka verslunarfermetrum með þessum hætti. Við erum að fara út úr óhagkvæmari rekstri, meðal annars sérvörurekstri, þar sem við erum ekki með það mikið magn að þar sé mikil stærðarhagkvæmni.“

Var það af einhvers konar virðingu við fortíðina að Hagkaupum á efri hæð Kringlunnar var ekki lokað fyrr og reksturinn sameinaður neðri hæðinni? 

„Nei, nei, það eru margir þættir eins og til dæmis leigusamningur og aðrar skuldbindingar sem réðu því, en svo kom tækifærið. Það er hins vegar ljóst að við hefðum viljað gert þetta fyrr.“

Þið sjáið einnig fyrir ykkur að loka Karen Millen í Kringlunni? 

„Reksturinn verður í það minnsta ekki í okkar höndum. Það er verið að vinna í því með samstarfsaðilum í Bretlandi og það er alveg ljóst að við erum á leið út úr þessum minni fataverslunum,“ svarar Finnur og blaðamaður spyr hvort fyrirtækið hefði ekki getað ráðist fyrr í lokanir á öðrum tískuvöruverslunum eins og Topshop og Debenhams þar sem einhverjar þeirra virðist hafa verið reknar með tapi.

„Hugsanlega. Það er alveg sjónarmið en það eru leigusamningar og skuldbindingar sem við vorum með sem spila inn í. En þegar tækifærin hafa opnast höfum við nýtt þau.“

Rökrétt skref

Stjórnendur Haga undirrituðu í lok apríl kaupsamning um allt hlutafé Olís og fasteignafélagsins DGV ehf. Samningurinn var gerður með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Stofnunin skoðar nú einnig kaup verslunarfyrirtækisins á Lyfju og segir Finnur að niðurstaða þeirrar vinnu eigi að liggja fyrir áður en júlí er á enda.

„Hvorugt málanna eru fullfrágengið. Það er fyrirvari með Lyfju um samþykki frá Samkeppniseftirlitinu og við erum að vinna í áreiðanleikakönnun með Olís og síðan er einnig fyrirvari um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Olís mun líklega ekki klárast fyrr en í lok árs eða upphafi næsta árs en Lyfja vonandi í lok júlí. Þetta tekur allt sinn tíma.“

Áttu kaupin á Olís sér ekki stuttan aðdraganda? 

„Að minnsta kosti ekki mjög langan. Auðvitað eru mörg mál sem koma til skoðunar en þegar þetta kom upp voru margir augljósir snertifletir sem gerðu það að verkum að það tók í sjálfu sér ekki langan tíma að ná niðurstöðu. Á þessu stigi er hins vegar óeðlilegt að ég tjái mig um félag sem er í eigu annarra áður en þetta er gengið í gegn en þarna eru mörg tækifæri.“

Nú er útlit fyrir að samkeppnisaðilinn Festi, sem rekur Krónuna, muni renna inn í olíufélagið N1. Er þetta einfaldlega rökrétt næsta skref fyrir þessi tvö fyrirtæki, Haga og Festi, að sameinast olíufélögum? „Ég tel að kaup okkar á Olís hafi hreyft hressilega við mönnum. Ef við horfum á nágrannalöndin og Bandaríkin er sala á þessum vöruflokkum samtvinnuð og ekkert óeðlilegt að það gerist hér líka. Ég vil meina að við höfum markað stefnuna en það er svo sem annarra að dæma um það en ég held að þetta sé farsælt skref fyrir bæði okkur og Olís og spennandi tímar fram undan.“

Hagar hófu í fyrra innflutning og heildsölu á áfengi. Var þá ekki gert ráð fyrir að áfengisfrumvarpið næði í gegn? 

„Það hefur gengið vel og við erum komin núna með um 60-80 tegundir. Það er búið að breyta þessu frumvarpi mjög mikið og ég held að það sé komið á þann stað að það sé búið að sníða af flesta þætti sem voru gagnrýniverðir. Eins og ég horfi á málið er áfengi selt það víða af einkaaðilum að dagvöruverslun er orðin eini angi verslunarinnar sem fær ekki að selja. Þetta er á bensínstöðvum, veitingastöðum, skyndibitastöðum, íþróttahúsum og félagsheimilum um allt land. seldur í einni sérstakri verslun og nýtur því ekki hagræðis. Við viljum draga úr kostnaði og bæta þjónustuna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×