Innlent

Sjálfstæðismenn vilja halda mötuneytum eldri borgara opnum yfir sumartímann

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Áslaug Friðriksdóttir talaði fyrir málinu á fundi borgarstjórnar í gær. Málinu var vísað til velferðarráðs.
Áslaug Friðriksdóttir talaði fyrir málinu á fundi borgarstjórnar í gær. Málinu var vísað til velferðarráðs. MYND/Sjálfstæðisflokkurinn
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram tillögu um að þjónusta mötuneyta við eldri borgara skerðist ekki yfir sumartímann. Fyrirhuguð skerðing hefst um næstu mánaðamót.

Alls eru sextán mötuneyti í borginni sem þjónusta eldri borgara en þjónusta í helmingi þeirra er skert yfir hásumarið. Var það gert til að mæta aðhaldskröfum.

Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, talaði fyrir tillögunni á fundi borgarstjórnar í gær. Hún segir að þjónustan tryggi fjölbreytta og reglulega fæðu auk þess sem hún gegni afar mikilvægu félagslegu hlutverki fyrir þá sem nýta sér hana. Dæmi væru um að rask á rútínu hefði alvarlegar afleiðingar í för með sér.

„Mér finnst ástæða til þess þegar borgarsjóður stendur betur en áður að við hverfum frá skerðingu á grunnþjónustu. Þetta er grunnþjónusta sem eðlilegt er að halda úti allt árið um kring,“ sagði Áslaug á fundinum í gær.

Meirihlutinn telur eðlilegt að málið verði tekið fyrir á fundi velferðarráðs síðar í vikunni. Þá verði hægt að meta kostnað af tillögunni og hvort unnt sé að ráðast í verkið.

„Við höfum hér með tillögu um það að halda þessu opnu og munum taka afstöðu til þess,“ sagði Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar. Rétt sé að meta tillöguna í nefnd í stað þess að taka ákvörðun strax.

„Á fundinum fáum upplýsingar um kostnað og getum metið hvort senda á beiðni til borgarráðs um þá fjármuni eða hvort þeir eru til hjá sviðinu,“ sagði Heiða Björg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×