Körfubolti

Grátbrosleg örlög Howard: Skipt á milli liða á meðan hann svaraði spurningum um leikmannaskipti

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ha? Ég?
Ha? Ég? vísir/getty
Bandaríski körfuboltamiðherjinn Dwight Howard er ekki lengur leikmaður Atlanta Hawks en honum var skipt í nótt til Charlotte Hornets sem verður fimmta liðið sem hann spilar með á þrettán árum í NBA-deildinni.

Það verður ekki annað sagt en gærkvöldið hafi verið grátbroslegt fyrir Howard sem ákvað að svara spurningum lesenda á Twitter um leikmannaskipti og leikmannamarkaðinn í NBA sem er nú á fullu rétt áður en nýliðavalið fer fram.

Howard bauð fylgjendum sínum að spyrja sig spjörunum úr en bað alla um að vera kurteisa. Aðeins tíu mínútum eftir að spurt og svarað hófst hjá miðherjanum bárust fréttirnar af leikmannaskiptum hans.

Marc Spears, blaðamaður hjá ESPN, greindi fyrstur frá því á Twitter-síðu sinni að Charlotte Hornets væri búið að næla í Howard frá Atlanta Hawks en hann virtist alls ekki eiga von á því að vera skipt á milli liða.

Howard endaði á því að svara bara einni spurningu en þegar þær fóru allar að snúast um hversu fyndin þessi tímasetning væri hætti miðherjinn að svara og fór líklega að hringja nokkur símtöl.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×