Enski boltinn

Var liðsfélagi Harðar en er á leið til Gylfa

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tammy Abraham skoraði mikið á síðustu leiktíð.
Tammy Abraham skoraði mikið á síðustu leiktíð. vísir/getty
Swansea er búið að vinna kapphlaupið um enska framherjann Tammy Abraham sem mun ganga í raðir velska félagsins á láni út næsta tímabil í ensku úrvalsdeildinni. BBC greinir frá.

Abraham, sem er 19 ára gamall, er einn efnilegasti leikmaður Englands en hann skoraði 23 mörk í ensku B-deildinni fyrir Bristol City á síðustu leiktíð þar sem hann spilaði með Herði Björgvin Magnússyni.

Nokkur félög á borð við nýliða Newcastle og Brighton voru mjög áhugasöm um að fá Abraham á láni á næstu leiktíð en sjálfur vildi leikmaðurinn ekki taka ákvörðun fyrr en eftir Evrópumót U21 árs landsliða sem er í gangi þessa dagana.

„Ég hef ekki enn þá talað við Chelsea. Ég er að einbeita mér að þessu móti og ákvörðunin verður tekin eftir það. Vonandi verður framtíð mín í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Abraham á fréttamannafundi í síðustu viku.

Paul Clement, knattspyrnustjóri Swansea, er ein helsta ástæða þess að félagið er að ná að landa Abraham en hann vann með leikmanninum hjá Chelsea. Abraham gekk í raðir Chelsea átta ára gamall og var Clement þjálfari hans í nokkur ár.

Swansea ætlar sér stóra hluti á leikmannamarkaðnum en eins og kom fram í morgun gæti farið svo að John Terry og Martin Skrtel myndi miðvarðapar liðsins á næstu leiktíð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×