Fótbolti

Rúnar Alex fékk nýjan þriggja ára samning og treyju númer eitt

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rúnar Alex Rúnarsson með ásinn.
Rúnar Alex Rúnarsson með ásinn. mynd/fcn.dk
Rúnar Alex Rúnarsson, 22 ára gamall markvörður Nordsjælland í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta, er búinn að skrifa undir nýjan þriggja ára samning við danska félagið en þetta kemur fram á heimasíðu Nordsjælland.

Rúnar Alex fékk einnig treyju númer eitt hjá Nordsjælland en íslenski markvörðurinn spilaði frábærlega á síðustu leiktíð og hefur nú verið verðlaunaður fyrir frammistöðu sína.

KR-ingurinn fyrrverandi hélt Hollendingnum Indy Groothuizen á varamannabekknum á síðustu leiktíð sem og sænska landsliðsmarkverðinum Patrick Carlgren sem gekk í raðir Nordsjælland í janúar.

Íslenski markvörðurinn hleypti hinum ekki að og átti Rúnar stóran þátt í því að mjög ungt lið Nordsjælland komst í meistaraumspilsriðil dönsku úrvalsdeildarinnar.

„Alex hefur sýnt miklar framfarir í vorleikjunum og verið mjög stöðugur. Hann er mjög hæfileikaríkur og við erum ánægðir með hvernig hann og nýi markvörðurinn okkar Inaki Cana vinna saman. Við hlökkum til að sjá Alex halda áfram að þróast í okkar liði og í dönsku úrvalsdeildinni,“ segir Carsten V. Jensen, yfirmaður knattspyrnumála hjá Nordsjælland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×