Innlent

Flugstjóri hjá Mýflugi segir neyðarbrautina í Reykjavík nauðsynlega

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Í umræðu um neyðarbrautina hefur oft verið gripið til þess að hún sé nauðsynleg við þjónustu sjúklinga á landsbyggðinni.
Í umræðu um neyðarbrautina hefur oft verið gripið til þess að hún sé nauðsynleg við þjónustu sjúklinga á landsbyggðinni. mynd/vísir
Flugstjóri hjá Mýflugi segir hina umdeildu „neyðarbraut“ á Reykjavíkurflugvelli nauðsynlega. Hann ítrekar að lokun brautarinnar þurfi að setja í samhengi við ýmsa öryggisþætti og segir lendingaraðstöðuna skipta sköpum fyrir sjúklinga á landsbyggðinni. Þá fagnar hann tilkynningu samgönguráðherra um byggingu nýrrar flugstöðvar í Vatnsmýrinni.

Rætt var við Þorkel Jóhannsson, flugstjóra hjá Mýflugi sem séð hefur um sjúkraflug til Reykjavíkur, í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Aðspurður hvort lendingaraðstaðan umrædda á Reykjavíkurflugvelli sé úr sögunni fyrir sjúkraflug segir Þorkell vona að svo sé ekki.



Þorkell Ásgeir Jóhannsson, flugstjóri hjá Mýflugi.Stöð 2/Einar Árnason.
„Það ætla ég að vona ekki enda nýlega komið í ljós að Samgöngustofa hefur orðið að viðurkenna að þessi lokun megi ekki teljast endanleg. Ég furða mig reyndar á því hvað Samgöngustofa var lengi að átta sig á því og gefa nokkuð út um það en það er tiltölulega stutt síðan það kom í ljós,“ segir Þorkell í viðtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

Þá setur hann spurningarmerki við ákvörðunina alveg frá því að neyðarbrautinni var upphaflega lokað sumarið 2016. Hann segir nauðsynlegt að athuga áhrif lokunarinnar á ýmsa öryggisþætti.

„Eins og ég vil meina var bent á og búið að benda á áður en þessi framkvæmd átti sér stað að það yrði að fara fram á ákveðið áhættumat á þýðingu flugvallarins og neyðarbrautarinnar, flugvallarins í þáverandi mynd, fyrir öryggisþætti eins og til dæmis sjúkraflug, almannavarnarflug og fleira,“ segir Þorkell.



Segir neyðarbrautina nauðsynlega fyrir sjúklinga

Í umræðu um neyðarbrautina hefur oft verið gripið til þess að hún sé nauðsynleg við þjónustu sjúklinga á landsbyggðinni. Þorkell segist þó ekki hafa nákvæma tölu yfir það hversu mörgum sjúklingum brautin hefur þjónað á síðustu árum.

„Ég hef ekki tekið saman neina heildartölu um það en það er ofsalega misjafnt milli ára hversu mikið reynir á þessa braut, það er yfirleitt nokkrum sinnum á vetri sem reynir á það, við þurfum á henni að halda.“

Hann segir að fram að vetrinum sem nú var að líða hafi Mýflug alltaf getað skilað af sér sjúklingi, ef útkallið hafi verið mögulegt á annað borð, en það hafi brugðist í vetur vegna lokunarinnar. Þá ítrekar Þorkell að ekki sé um annan stað en Reykjavík að ræða til neyðarlendingar sjúkraflugs á suðvesturhorni landsins.

„Nei, það er ekki um annan stað að ræða. Í vetur voru allavega fjögur skipti þar sem var ekki um annað að ræða. Við gátum ekki lent annars staðar á suðvesturhorni landsins. Við gátum ekki lent í Keflavík þrátt fyrir að við hefðum viljað reyna það.“

Líst vel á fyrirhugaða byggingu nýrrar flugstöðvar

Jón Gunnarsson, samgönguráðherra, tilkynnti í dag um fyrirhugaða byggingu á nýrri flugstöð í Vatnsmýrinni. Þessi staðsetning Reykjavíkurflugvallar hefur verið mjög umdeild en Þorkell fagnar áætlunum samgönguráðherra.

„Mér líst ljómandi vel á það ef það finnst lausn á því að þessi flugvöllur geti þjónað okkur jafnvel í framtíðinni og hann hefur gert hingað til, í þeirri mynd sem hann var með þremur brautum.“

Viðtalið í Reykjavík síðdegis má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir

Sjúkravél Mýflugs gat ekki lent í Reykjavík

Ekki var hægt að fljúga sjúkraflug með alvarlegan veikan mann frá Hornafirði til Reykjavíkur í gær vegna þess að allar brautir nema NA/SV flugbraut Reykjavíkurflugvallar voru ófærar vegna veðurs. Brautinni var lokað í júlí síðastlið

Vilja opna neyðarbrautina á ný

Bæjarráð Akureyrar fjallaði á fundi sínum í gærmorgun um stöðu Reykjavíkurflugvallar og lokun neyðarbrautar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×