Fótbolti

Oscar í átta leikja bann fyrir að stofna til slagsmála

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Oscar missti stjórn á skapi sínu og kom slagsmálum af stað.
Oscar missti stjórn á skapi sínu og kom slagsmálum af stað. vísir/afp
Oscar, fyrrverandi leikmaður Chelsea, hefur verið dæmdur í átta leikja bann fyrir að stofna til slagsmála í leik Shanghai SIPG og Guangzhou R&F í kínversku ofurdeildinni í fótbolta á sunnudaginn.

Oscar þrumaði þá boltanum í tvo leikmenn Guangzhou. Í kjölfarið brutust út slagsmál. Einn leikmaður úr hvoru liði fékk reisupassann en Oscar slapp með skrekkinn. Hann fékk hins vegar sína refsingu í dag.

Auk þess að vera dæmdur í átta leikja bann var Oscar dæmdur til að greiða rúmlega fjögurra milljóna króna sekt.

Leikmennirnir sem voru reknir út af í leiknum á sunnudaginn, Fu Huan hjá Shanghai og Li Zixiang hjá Guangzhou, fengu sex og fimm leikja bann. Þá fékk Guangzhou-maðurinn Chen Zhizhao, sem hrinti Oscar, sjö leikja bann.

Félagaskipti Oscars frá Chelsea til Shanghai í janúar vöktu mikla athygli enda Brasilíumaðurinn á besta aldri sem fótboltamaður. Shanghai borgaði 60 milljónir punda fyrir Oscar sem ku fá 400.000 pund í vikulaun hjá félaginu.

Oscar hefur leikið alla 13 leiki Shanghai á tímabilinu. Liðið er í 2. sæti kínversku ofurdeildarinnar með 30 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Guangzhou.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×