Körfubolti

Brjóta gegn reglum EES með 4+1 reglunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr oddaleik KR og Grindavíkur um Íslandsmeistaratitilinn í karlaflokki í vor.
Úr oddaleik KR og Grindavíkur um Íslandsmeistaratitilinn í karlaflokki í vor. vísir/andri marinó
KKÍ, Körfuknattleikssamband Íslands, brýtur reglur evrópska efnahagssvæðisins (EES) með hinni svokölluðu 4+1 reglu sem leyfir aðeins einum erlendum leikmanni í hvoru liði inni á vellinum í einu. RÚV greinir frá.

Í formlegri tilkynningu frá ESA, eftirlitsstofnun EFTA, kemur fram að það felist mismunun í því að leyfa aðeins einum erlendum leikmanni í hvoru liði að vera inni á vellinum á sama tíma.

EES barst kvörtun í ágúst í fyrra en liggur fyrir frá hverjum hún kom. KKÍ frétti af málinu fyrir tveimur vikum en íslensk stjórnvöld hafa vitað af því síðan í september á síðasta ári.

„Við höfðum ekki hugmynd um þetta fyrr en fyrir tveimur vikum síðan. Þá fengum við veður af þessu frá ráðuneytinu, að það væri verið að skoða þessi mál,“ sagði Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, í samtali við RÚV.

Íslensk stjórnvöld hafa þrjá mánuði til að skila inn athugasemdum vegna málsins.

Í frétt RÚV segir að lagt sé til að leysa málið með því að láta sömu reglur gilda um leikmenn frá ríkjum innan EES og Íslendinga en halda kvóta á leikmönnum frá ríkjum utan evrópska efnahagssvæðisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×