Enski boltinn

Lampard: Yrði erfitt að fylla upp í skarð Costa

Elías Orri Njarðarson skrifar
Diego Costa, að fagna einu af mörgum mörkum fyrir Chelsea.
Diego Costa, að fagna einu af mörgum mörkum fyrir Chelsea. visir/epa
Diego Costa, framherji Chelsea, er að öllum líkindum á förum frá Chelsea eftir að fregnir bárust af því að Antonio Conte, þjálfari Chelsea, hafi tjáð leikmanninum sjálfum að hann hafi ekki not fyrir Costa á næsta tímabili.

Diego Costa skoraði 20 mörk í 35 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á seinasta tímabili og getur því ekki hver sem er fyllt skarð hans að mati Frank Lampard, fyrrverandi leikmanns Chelsea.

„Hann er frábær framherji og við sáum það öll á seinasta tímabili og síðan að hann kom til Chelsea. Það yrði mjög erfitt að fylla upp í skarð Costa, það er enginn vafi um það,“ segir Lampard í viðtali við Sky Sports.

Talið er að forráðamenn Chelsea vilji fá Romelu Lukaku aftur á Stamford Bridge, eftir að hafa selt hann yfir til Everton árið 2014.

„Ég spilaði með Lukaku, en það var snemma á ferlinum hans. Hann fékk ekki mörg tækifæri þegar hann var hjá Chelsea. Hann hefur þróast mikið sem leikmaður og Romelu væri svo sannarlega góður kostur,“ sagði Lampard.

Spennandi verður að sjá hvert leið Diego Costa liggur fyrir næstkomandi tímabil - hvort hann haldi burt frá Chelsea eða hvort hann verði áfram á Brúnni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×