Enski boltinn

Rigning kom í veg fyrir að Ronaldinho samdi við Manchester United

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ronaldinho fór til Barcelona og sló í gegn.
Ronaldinho fór til Barcelona og sló í gegn. Vísir/Getty
Quinton Fortune, fyrrverandi leikmaður Manchester United, heldur því fram að veðrið í borginni, þá aðallega rigningin, hafi komið í veg fyrir að Brasilíumaðurinn Ronaldinho samdi við United árið 2003.

Þetta sumar yfirgaf David Beckham Manchester United og hélt til Real Madrid og því var enska félagið að leita að skapandi miðjumanni. Ronaldinho var á markaðnum eftir tvö frábær ár hjá Paris Saint-Germain.

United vildi ólmt fá Ronaldinho og fundaði með honum en á endanum fór Brassinn til Barcelona þar sem hann vann deildina í tvígang, Meistaradeildina einu sinni og var tvisvar sinnum á fimm árum í Katalóníu kjörinn besti leikmaður heims.

Quinton Fortune rifjar upp daginn örlagaríka 30. júní þegar Ronaldinho mætti til Manchester á fund.

„Við klikkuðum með því að fá Ronaldinho til okkar á röngum tíma árs. Það var rigning daginn sem hann lenti á flugvellinum í Manchester,“ segir Suður-Afríkumaðurinn.

„Kannski var sumar en það skiptir ekki öllu máli. Ef við hefðum fengið hann á öðrum degi hefði sagan kannski verið öðruvísi.“

„Það hefði verið algjörlega frábært að hafa hann hérna. Hann er einn besti leikmaður sögunnar og æðislegur að horfa á,“ segir Quinton Fortune.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×