Erlent

Kynferðisofbeldi á Hróarskeldu: „Við fórum út úr tjaldinu og í regnföt og ég hélt áfram að gráta“

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Hróarskelduhátíðin er haldin um helgina í 47. sinn.
Hróarskelduhátíðin er haldin um helgina í 47. sinn. Vísir/EPA
Hróarskeldu tónlistarhátíðin er haldin um helgina í 47. skipti. Þegar umræða um kynferðisofbeldi á útihátíðum hérlendis hefur komið upp hefur það oft verið nefnt að á Hróarskeldu, þessari risastóru tónlistarhátíð frænda okkar Dana, sé kynferðisofbeldi nánast óséð. Það er þó ekki rétt. Fimm nauðganir voru til að mynda tilkynntar til lögreglu á hátíðinni í fyrra og nú hefur danska blaðið Politiken hafið greinaröðina

„Hróarskelda án samþykkis“ til að opna umræðuna um kynferðisofbeldi á hátíðinni.

„Á Hróarskeldu verða mörk óljós í vímunni sem fylgir frelsi, djammi og tónlist. En hvað gerist þegar brotið er á mörkum einhvers? Á hverju ári verða konur sérstaklega fyrir kynferðisofbeldi, nauðgunum, ofbeldi og kynjamisrétti á hátíðinni. Í nýrri greinaröð gefum við þolendum rödd,“ segir í lýsingu Politiken á greinunum.

Vaknaði og horfði í augun á ljóshærðum ókunnugum manni

„Þetta var sjöunda skiptið í röð sem ég var á Hróarskeldu og ég var 22 ára.“ Þannig hefst frásögn 27 ára gamallar konu sem kölluð er Eva Madsen, en hún vill ekki láta nafns síns getið. Hún segir frá því að á síðasta degi hátíðarinnar hafi hún skemmt sér með vinum sínum og í lok kvöldins haldið aftur í tjaldið sitt og sofnað. Vinir hennar hafi gleymt þetta tiltekna kvöld að læsa tjaldi sínu með hengilás eins og þau voru vön að gera.

Skyndilega vaknaði hún við að eitthvað undarlegt var á seyði. Hún settist upp og starði í augun á ljóshærðum manni sem var með fingur sína í leggöngum hennar.

„Hann hafði opnað tjaldið, opnað svefnpokann minn og togað niður nærbuxurnar mínar. Ég hef ekki hugmynd um hversu lengi hann var búinn að vera þarna. Honum virtist bregða við að sjá mig vakandi og flýtti sér í burtu. Svo ég lokaði tjaldinu, klæddi mig í nærbuxurnar, lokaði svefnpokanum og náði að lokum að sofna aftur.“

Hún segist hafa vaknað daginn eftir og sagt vinum sínum sem deildu með henni tjaldi frá því hvað hefði gerst.

„Við fórum út úr tjaldinu og í regnföt. Ég hélt áfram að gráta. Fyrir tilviljun komu tveir verðir sem spurðu hvort þeir gætu aðstoðað. Ég sagði þeim hvað gerðist og þeir höfðu samband við sjúkraliðana sem komu með börur og hjálpuðu mér.“

Hún segist síðar talað við lögreglu sem hafi útskýrt að hún hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi, það væri jákvætt að hún mundi vel eftir atvikinu en að líkurnar á að finna ofbeldismanninn væru litlar. Hún hafi seinna furðað sig á því að hún hafi ekki brugðist strax við, vakið vini sína og sagt þeim strax frá.

„Ég kenndi sjálfri mér brjálæðislega mikið um að hafa bara farið að sofa. Að ég hafi ekki elt hann. Hann fékk aldrei að heyra að þetta væri ekki í lagi. Það hræðir mig að hann haldi kannski ennþá að þessi hegðun sé í lagi. Þetta er glæpur sem hefur áhrif á líf fólks til frambúðar. Ég vildi að ég gæti sagt það við hann.“ 

Mörg þúsund manns gista á tjaldsvæðum Hróarskeldu ár hvert yfir hátíðina.Vísir/Getty

Sagði ítrekað nei

Önnur ung kona sem segir sögu sína á Politiken er kölluð Sarah Nielsen. Hún varð fyrir ofbeldi á Hróarskeldu árið 2015 þegar hún var 21 árs gömul. Hún hafði verið á upphitunarhátíðinni með vinum sínum úr skólanum og var orðin skotin í einum þeirra. Eitt kvöldið höfðu þau farið í stórt partí á einu tjaldsvæðanna

„Ég var ekki mjög drukkin. Ég hafði það á tilfinningunni að kvöldið væri rétt að byrja. Það var mjög greinilegt að hans kvöld hafði verið í gangi mjög lengi. Hann var mjög drukkinn. Hann kyssti mig þegar við hittumst og ég hugsaði „vá.“ Ég hélt að við værum ekki komin svo langt, en ég var glöð að sjá hann. Mér fannst hann jú mjög sætur,“ segir Sarah.

Þau hafi fljótt orðið viðskila við vini sína og drengurinn spurði Söruh hvort hún vildi fara með honum í annað hvort tjaldið þeirra.

„Ég sagði nei. Ekki af því að ég vildi ekki vera með honum, heldur af því að ég vildi ekki fara að sofa strax. Nei, nei við ætluðum að dansa, sagði ég. Kvöldið mitt var bara rétt að byrja.“

Hann sannfærði hana því næst að fara með sér í göngutúr niður að vatninu. Þar hafi hann kysst hana og stungið upp á því að þau gengu lengra. Hún hafi ítrekað neitað, sagt honum að hún vildi ekki sofa hjá honum á þessum stað á þessum tíma. Drengurinn reyndi ítrekað að leggja Söruh á jörðina og klæða hana úr fötunum en hún hafi alltaf neitað og ríghaldið í föt sín.

„Þetta var svo skrítið. Þetta var strákur sem ég var skotin í. Þannig að þó að ég segði nei þá kyssti ég hann líka. Ég vildi alveg vera með honum, ég vildi það bara ekki þar og þá. Ég hélt áfram að segja nei við því að hann klæddi mig úr fötunum. En það endaði með því að hann klæddi mig úr buxunum þannig að þær rifnuðu frá klofi niður á ökkla.“

Hún segist hafa gefist upp þegar hún áttaði sig á því að þau voru hvorugt í fötum.

„Ég lá bara og reyndi að einbeita mér að öðru þar til þetta var búið. Á einum tímapunkti gengu nokkrar manneskjur framhjá. Þá rankaði ég við mér og sagði „Nei, nei. Þetta má ekki. Hættu, hættu, hættu. Hann setti hendina yfir munninn á mér og hélt áfram.“

Sendi nauðgaranum skilaboð

„Eftir nokkra stund þá hætti hann. Hann stakk upp á því að við færum í tjald. Á þeim tíma þá vissi ég ekki hvað hefði gerst. Ég gerði mér engan veginn grein fyrir því. Að hann hefði nauðgað mér.“ 

Sarah segir að í kjölfar árásarinnar hafi hún ekki treyst karlmönnum og að sjálfstraust hennar hafi dalað mikið. Þegar hún hafi horft í spegil hafi henni fundist hún ljót, sem hún hafði ekki upplifað áður. Þegar vinkona hennar hafi sagt henni frá nauðgun sem hún hafi orðið fyrir hafi hún loksins áttað sig á því hvað hefði gerst. Fyrir mánuði hafi hún svo sent nauðgara sínum skilaboð.

„Kannski vissi hann að hann hefði farið yfir einhver mörk, en ekki að hann hefði nauðgað mér. Hann ætti að vita hvað gerðist og að ég vildi ekki lengur halda því leyndu. Ég var skíthrædd um að hann myndi halda því fram að þetta hefði ekki gerst. Þegar ég sendi skilaboðin byrjaði hann að hringja og vildi hitta mig. En ég hafði enga þörf fyrir að hitta hann. Hann skrifaði skilaboð og sagðist virða það.“

Samkvæmt umfjöllun Politiken eru skipuleggjendur hátíðarinnar meðvitaðir um að kynferðisofbeldi sé vandamál. Síðustu þrjú ár hefur hátíðin verið í samstarfi við Evryday Sexism Project í Danmörku og gefið peninga til samtaka sem vinna gegn kynjamisrétti og kynferðisofbeldi. Á sunnudaginn verður viðburður á Rising City svæðinu þar sem sérstaklega er talað um kynferðislegt samþykki.

Vandamálið er þó enn viðvarandi, en tveir karlmenn voru síðastliðinn sunnudag handteknir á hátíðarsvæðinu grunaðir um að nauðga 18 ára stúlku




Fleiri fréttir

Sjá meira


×