Erlent

Fyrrverandi forsætisráðherra Ísrael sleppt úr fangelsi

Samúel Karl Ólason skrifar
Ehud Olmert, fyrrverandi forsætisráðherra Ísrael.
Ehud Olmert, fyrrverandi forsætisráðherra Ísrael. Vísir/AFP
Ehud Olmert, fyrrverandi forsætisráðherra Ísrael, verður sleppt úr fangelsi á sunnudaginn. Reynslulausnarnefnd hefur ákveðið að sleppa honum eftir að hann hefur afplánað um tvo þriðju af 27 mánaða fangelsisdómi sínum fyrir spillingu. Dómsmálaráðuneyti Ísrael getur þó enn áfrýjað ákvörðuninni.

Olmert, sem er 71 árs gamall, var forsætisráðherra á árunum 2006 til 2009 og er hann fyrsti forsætisráðherra landsins til að sitja í fangelsi. Ástæða þess að nefndin ákvað að sleppa honum liggur ekki fyrir, en búist er við tilkynningu seinna í dag samkvæmt AFP fréttaveitunni.

Hann var þó fluttur á sjúkrahús í síðustu viku með brjóstverki.

Forsætisráðherran fyrrverandi sagði af sér í september 2008 eftir að lögreglan í Ísrael lagði til að hann yrði ákærður fyrir spillingu. Hann var dæmdur fyrir að hafa tekið við mútum snemma á síðasta áratugi. Hann sat þó áfram í embætti til mars 2009, þegar Benjamin Netanyahu, núverandi forsætisráðherra Ísrael, tók við völdum.

Mögulega verður Olmert ákærður aftur, en hann er grunaður um að hafa smyglað kafla úr bók sem hann er að skrifa úr fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×