Innlent

Borgarráð samþykkir samstarfssamning um lest til Keflavíkurflugvallar

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Fluglestin mun líklega auðvelda mörgum að komast til og frá Keflavíkurflugvelli.
Fluglestin mun líklega auðvelda mörgum að komast til og frá Keflavíkurflugvelli. vísir/stefán
Borgarráð Reykjavíkur hefur samþykkt samstarfssamning um fluglest á milli borgarinnar og Keflavíkurflugvallar. Bæjarráð Garðabæjar hefur einnig samþykkti samninginn en ekki liggur fyrir ákvörðun hjá Kópavogi og Hafnarfirði.

Samband sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu mun hefja þróunarvinnu í samvinnu við þróunarfélagið um breytingar á skipulagsáætlunum höfuðborgarsvæðisins vegna framkvæmda og reksturs hraðlestarinnar.

Lögð verður áhersla á að tryggja hagkvæmni framkvæmdarinnar og að þróunarfélagið muni framkvæma nauðsynlegar rannsóknir til að undirbúa framkvæmdir. Einnig verða tengingar lestarstöðva við byggð, umferðarmannvirki og almenningssamgöngur skoðaðar sérstaklega.

„Þessi samningur, verði hann einnig samþykktur í Kópavogi og Hafnarfirði, mun gera okkur kleift að ráðast í fjármögnun næsta áfanga þessa stóra og mikilvæga verkefnis sem við höfum nú verið að vinna að í á fimmta ár. Það er þriggja ára vinna sem felst í skipulagsgerð, mati á umhverfisáhrifum og forhönnun en heildarkostnaður við þennan áfanga er um 1,5 ma. króna og vegur þar rannsóknakostnaður á jarðlögum þungt,“ segir Runólfur Ágústsson, framkvæmdastjóri Fluglestarinnar-þróunarfélags.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×