Enski boltinn

Coutinho vill ekki ræða mögulega sölu sína til Barcelona

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Philippe Coutinho kom að 20 mörkum í ensku úrvalsdeildinni með beinum hætti.
Philippe Coutinho kom að 20 mörkum í ensku úrvalsdeildinni með beinum hætti. vísir/getty
Philippe Coutinho hefur ekkert viljað ræða mögulega sölu sína til Barcelona síðustu daga en brasilískir blaðamenn hafa ítrekað reynt að fá hann til að tjá sig um hvar hann spilar næsta vetur.

Coutinho hefur undanfarna daga verið með brasilíska landsliðinu en hefur forðast allar spurningar um framtíð sína. Hann hefur verið sterklega orðaður við Barcelona en það var vissulega áður en þjálfaraskipti urðu á Nývangi.

„Það er flókið að tala um þetta. Ég er með samning við Liverpool og hann er langur. Ég einbeiti mér bara að landsliðinu og því sem er að gerast núna,“ lét Coutinho hafa eftir sér en fleiri voru ekki þau orð.

Coutinho hefur á síðustu misserum stimplað sig inn sem einn besta sóknarmann ensku úrvalsdeildarinnar en hann skoraði þrettán deildarmörk og lagði upp önnur sjö í 31 leik fyrir Liverpool á síðustu leiktíð.

Þessi 25 ára fastamaður í brasilíska landsliðinu kom til Liverpool árið 2013 frá Inter en svo virðist sem það gæti orðið alvöru barátta hjá Liverpool að halda honum í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×