Enski boltinn

Býst við miklu betri Pogba á næstu leiktíð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Paul Pogba vann tvo titla á sinni fyrstu leiktíð eftir endurkomuna til United.
Paul Pogba vann tvo titla á sinni fyrstu leiktíð eftir endurkomuna til United. vísir/getty
Manchester United mun sjá nýjan og enn betri Paul Pogba á næstu leiktíð. Um það er Ryan Giggs, fyrrverandi leikmaður og knattspyrnustjóri liðsins, alveg viss.

Pogba var gerður að dýrasta fótboltamanni sögunnar á síðustu leiktíð þegar United keypti hann fyrir 89 milljónir punda en hann fékk sinn skerf af gagnrýni á sinni fyrstu leiktíð á Old Trafford eftir endurkomuna.

Giggs velkist ekki í vafa um að Pogba sé nú búinn að ná tökum á ensku úrvalsdeildinni og verði frábær á næsta tímabili.

„Hann hefur allt. Hann getur hlaupið teig í teig og skorað mörk. Hann skaut níu eða tíu sinnum í tréverkið á síðustu leiktíð. Ef hann getur breytt þeim skotum í mörk verður hann bara betri,“ sagði Giggs á ITV í gærkvöldi er hann horfi á landsleik Englands og Frakklands.

„Pogba vantar bara smá stöðugleika. Maður vissi aldrei á síðustu leiktíð hvað maður myndi fá frá honum en í heildina var ég ánægður með hann.“

„Pogba var svo góður í kvöld. Það er ekki hægt annað en að vera spenntur sem stuðningsmaður Manchester United ef hann ætlar að spila svona vel á næstu leiktíð. Hann hafði allt í þessum leik í kvöld,“ sagði Ryan Giggs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×