Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Breiðablik - Valur 1-2 | Bjarni Ólafur hetja Valsmanna | Sjáðu mörkin

Benedikt Bóas skrifar
Bjarni Ólafur Eiríksson tryggði Valsmönnum þrjú stig á Kópavogsvelli með dramantísku sigurmarki undir blálokin. Sannkallað flautumark því Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, dómari leiksins, leyfði Blikunum varla að taka miðju þegar hann flautaði leikinn af.

Blikar voru heldur ósáttir við að Vilhjálmur væri ekki búinn að flauta af en hann leyfði Valsmönnum að taka aukaspyrnu þegar uppbótartíminn var liðinn. Hann benti þó Valsmönnum á að þetta væri síðasta spyrna leiksins. Og úr henni skoraði Bjarni og fagnaði eðlilega eins og óður maður.

Af hverju vann Valur?

Valsmenn áttu sigurinn skilinn. Þeir voru sterkari heilt yfir þrátt fyrir að hafa varla mætt til leiks fyrstu 20 mínútur leiksins. Í síðari hálfleik voru þeir mun sterkari og á tímabili virtust þeir varla vita hvað þeir ættu að gera við alla þessa yfirburði.

Hverjir stóðu uppúr?

Gömlu mennirnir slógu í gegn. Gunnleifur Gunnleifsson var maður leiksins. Bjargaði Blikum oft með meistaratöktum. Bjarni Ólafur skoraði sigurmarkið og var eins og alltaf mjög góður þótt hann hafi verið orðinn þreyttur. En það eru fáir í betra formi en sá gamli og hann stóð uppúr með viljann að vopni og skallaði í netið.

Hvað gekk illa?

Krummafóturinn sem framherjarnir eru í þessa dagana er enn reimaðir með rembihnút á þá Kristinn Inga og Dion Acoff. Þeir koma sér í fjölmörg færi en boltinn hreinlega vill ekki leka inn.

Blikar byrjuðu leikinn af krafti og voru ógnarsterkir í upphafi leiks en eftir að Valsmenn loks byrjuðu leikinn fór að halla undan fæti. Hrvoje Tokic skoraði vissulega mark eftir fimm mínútur og annað sem var dæmt af vegna rangstöðu þá kvaddi hann nánast leikinn. Vissulega fékk hann litla þjónustu en Blikar vilja eðlilega fá meira út úr sínum stjörnuframherja.

Hvað gerist næst?

Valur mætir KA á sunnudag en Blikar fara í Frostaskjólið og taka á móti KR á mánudag. Bæði lið verða í beinni á Stöð 2 sport.

Ólafur: Gott hjá Vilhjálmi að leyfa okkur að klára aukaspyrnuna

„Það var bara eitt lið sem hafði áhuga á því að vinna leikinn og það tekur stundum allar sekúndurnar að koma stigunum í hús.

Við vorum með yfirhöndina allan seinni hálfleikinn og við vorum svolítið lengi að komast í gegn en það hafðist sem betur fer.

Það var nú einhver dómari sem sagði við mig um daginn að það ætti að klára aukaspyrnur og hann Vilhjálmur leyfði það og það var gott hjá honum.“

Milos: Reynir á að fá á sig mark á 95 mínútu

„Þetta svíður mikið en svona er fótbolti. Leikurinn er ekki búinn fyrr en dómarinn flautar af og þeir hafa alltaf rétt fyrir sér. Þetta er svekkjandi en Valur er gott lið og ég óska þeim til hamingju með stigin þrjú.

Valur er þannig lið sem vilja svæfa með sendingum og svo refsa. Mér fannst þeir ekki ógna okkur eins og þeir hafa gert hingað til í mótinu en mínir menn gáfu allt í þennan leik og ég kvarta ekki undan því. En á mikilvægum augnablikum þá sofnum við á verðinum og þeir skora tvö mörk og fara með stigin þrjú heim.  

Það er erfiður leikur á mánudaginn og þá verðum við að sýna úr hverju við erum gerðir. Því það reynir á að fá á sig mark á 95 mínútu.“

Aðspurður um hvort tíminn hafi verið búinn sagði Milos einfaldlega; Nó komment.

Einkunnir:

Breiðablik (4-3-3):
Gunnleifur Gunnleifsson 7 - Guðmundur Friðriksson 5 (63. Willum Þór Willumsson 6), Michee Efee 5, Damir Muminovic 7, Davíð Kristján Ólafsson 6 - Andri Rafn Yeoman 5, Arnþór Ari Atlason 6, Gísli Eyjólfsson 6 - Höskuldur Gunnlaugsson  6 (74. Brynjar Óli Bjarnason -), Hrvoje Tokic 5, Martin Lund Pedersen 5.

Valur (4-3-3):
Anton Ari Einarsson 6 - Arnar Sveinn Geirsson 6, Orri Sigurður Ómarsson 5, Rasmus Christiansen 7, Bjarni Ólafur Eiríksson 8* (maður leiksins) - Haukur Páll Sigurðsson 7 (73. Sindri Björnsson 6), Einar Karl Ingvarsson 7, Guðjón Pétur Lýðsson 7 - Dion Acoff 7 (77. Sveinn Aron Guðjohnsen -), Kristinn Ingi Halldórsson 6, Sigurður Egill Lárusson 6 (83. Nicolas Bögild -).

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira