Enski boltinn

Sex milljarðar ekki nóg fyrir Chelsea til að landa stjörnu frá Napoli

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lorenzo Insigne er eftirsóttur.
Lorenzo Insigne er eftirsóttur. vísir/getty
Enska úrvalsdeildarliðið Chelsea þarf að opna veskið upp á gátt ætli það að kaupa ítalska sóknarmanninn Lorenzo Insigne frá Napoli.

Enska götublaðið The Sun hefur greint frá því að Chelsea sé að íhuga 45 milljóna punda tilboð í leikmanninn eða tæplega sex milljarða króna tilboð.

Insigne skoraði 18 mörk fyrir Napoli í ítölsku A-deildinni á síðustu leiktíð en hann skrifaði undir nýjan samning við félagið til ársins 2022 í apríl og segist vera ánægður hjá félaginu.

Franco della Monica, umboðsmaður Insigne viðurkennir að mikill áhugi er á leikmanninum en tæpir sex milljarðar munu ekki duga til að kaupa hann frá Napoli.

„Fyrst vil ég segja að tilboðið sem The Sun greindi frá er of lágt en hann er og hefur lengi verið undir smásjá stærri félaga. Hann einbeitir sér þó að Napoli núna og var verðlaunaður fyrir frammistöðu sína á dögunum,“ segir Franco Della Monica í útvarpsviðtali.

Lorenzo Insigne er 26 ára gamall sóknarmaður sem er uppalinn hjá Napoli en eftir að spila einn leik fyrir liðið 18 ára gamall fór hann til Foggia en kom svo aftur árið 2011. Hann hefur skorað 20 mörk í 64 leikjum á síðustu tveimur leiktíðum í ítölsku A-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×