Erlent

Aukakílóin talin hættuleg

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Vísindamenn segja að nýársheit um að létta sig eigi að verða heilsársverkefni en ekki hálfkák.
Vísindamenn segja að nýársheit um að létta sig eigi að verða heilsársverkefni en ekki hálfkák. Vísir/Getty
Tveir milljarðar manna, eða 30 prósent jarðarbúa, glíma við ofþyngd eða fitu. Sjö prósent dauðsfalla í heiminum á hverju ári má rekja til fitu eða ofþyngdar. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem kynnt var á Eat-forum, árlegri ráðstefnu um heilsu, matvæli og sjálfbærni, sem haldin var í Stokkhólmi í þessari viku og greint er frá á vefnum Dagens Næringsliv.

Þar segir að það sé ekki bara fita, heldur einnig ofþyngd sem leiði til sjúkdóma og ótímabærra dauðsfalla. Dauðsföllum tengdum háum líkamsþyngdarstuðli hafi fjölgað úr 2,2 milljónum árið 1990 í 4 milljónir árið 2015. Líkamsþyngdarstuðull, BMI-Index, milli 25 og 30 er skilgreindur sem ofþyngd. Ef einstaklingur er með líkamsþyngdarstuðul yfir 30 er viðkomandi skilgreindur sem feitur.

Einn aðstandenda rannsóknarinnar, Christopher J. L. Murray segir heilsufar almennings almennt hafa batnað undanfarinn áratug. Fáein atriði hafi þó versnað og þeim þurfi að gefa meiri gaum. Efst á þeim lista sé ofþyngd. Kostnaðurinn vegna ofþyngdar hækki í nær öllum löndum.

Haft er eftir Walter Willett, prófessor við Harvard-háskólann, að niðurstöðurnar komi ekki á óvart. Afar fáum löndum hafi tekist að snúa ofþyngdarfaraldrinum við. Búast megi við verri afleiðingum faraldursins í framtíðinni þegar börnin sem eru of feit núna verða fullorðin.

Í grein í vísindaritinu The New England Journal of Medicine, sem birt var nú í vikunni, segir að árið 2015 hafi 107,7 milljónir barna glímt við offitu og 603,7 milljónir fullorðinna. Tilfelli offitu hafa tvöfaldast í yfir 70 löndum og fjölgað stöðugt í flestum öðrum löndum. Þótt tilfelli offitu meðal barna hafi verið færri en meðal fullorðinna hefur tilfellunum meðal barna fjölgað meira en fullorðinna í mörgum löndum, að því er segir í greininni.

Murray segir að þeir sem yppti öxlum vegna þyngdaraukningar taki áhættu. Þeir eigi á hættu að fá hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki, krabbamein og aðra lífshættulega sjúkdóma.

Vísindamennirnir hvetja einstak­linga sem eru með aukakíló að taka því alvarlega. Nýársheit um að létta sig eigi að verða heilsársverkefni en ekki hálfkák. Samtímis eigi að stefna að því að koma í veg fyrir að þyngjast aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×