Sport

Conor og Mayweather munu græða milljarða

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Conor verður orðinn margfaldur milljarðamæringur í lok sumars.
Conor verður orðinn margfaldur milljarðamæringur í lok sumars. vísir/getty
Það munu margir græða á ofurbardaga Floyd Mayweather og Conor McGregor og ekki síst bardagakapparnir báðir.

Það er ekki gefið upp hvað Mayweather og McGregor fá í sinn hlut en það eru milljarðar. Að stórum hluta mun það líka velta á því hversu margir kaupa áskrift að bardaganum.

Miðað við athyglina sem þessi bardagi fær, og mun fá á komandi vikum, er ljóst að milljónir munu kaupa sér áskrift að bardaganum. Það vill enginn missa af þessum óhefðbundna ofurbardaga.

Hermt er að Mayweather muni fá 100 milljónir dollara en McGregor fái 75 milljónir þar sem hann þarf að láta UFC fá hluta af sínum peningum enda á samningi þar.

Það þýðir að Mayweather fær tíu milljarða króna en Conor 7,5 milljarða. Stjarnfræðilegar upphæðir.

Nú hafa menn vestra reiknað að gangi allt upp varðandi sjónvarpsáskriftir gæti Mayweather farið í allt af 175 milljónir dollara á meðan Conor skríður upp í 100 milljónirnar. Mayweather er þá kominn í 17,5 milljarða króna.

Þetta eru miklu meiri peningar en Conor mun fá allan sinn feril hjá UFC og því vel skiljanlegt að fólk velti því fyrir sér hvort Írinn muni nokkurn tímann berjast aftur eftir þennan bardaga. Hann þarf þess ekki enda fjárhagslega öruggur, og rúmlega það, út lífið.

Dana White, forseti UFC, sagði þó í gær að Conor stefndi á að verja millivigtartitil sinn síðar á árinu. Sjáum til hvort það gangi eftir.

MMA

Tengdar fréttir

Dana White: Conor er 100% viss um að vinna

Dana White, forseti UFC, segir að Conor McGregor sé handviss um að hann muni sigra Floyd Mayweather þegar þeir mætast í hringnum þann 26. ágúst næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×