Innlent

Heitavatnslaust í Hnoðraholti og Salahverfi vegna leka

Atli Ísleifsson skrifar
Lekinn á Suðuræð er við Rjúpnaveg.
Lekinn á Suðuræð er við Rjúpnaveg. Vísir/Getty
Röskun verður á afhendingu heits vatns víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu eftir að leki kom að svokallaðri Suðuræð, stórri hitaveitulögn sem flytur heitt vatn frá Nesjavöllum til Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar.

Í tilkynningu frá Veitum segir að í efri hverfum Hafnarfjarðar megi íbúar búast við þrýstingslækkun, heitavatnslaust verði í Hnoðraholti og þrýstilækkun og/eða heitavatnsleysi verði í Salahverfi í Kópavogi.

„Lekinn á Suðuræð er við Rjúpnaveg. Unnið verður að viðgerð lagnarinnar í dag en ekki er vitað hversu langan tíma hún tekur. Upplýsingar um framgang verksins má fá á www.veitur.is.

Fólki er bent á að hafa skrúfað fyrir alla heitavatnskrana til að draga úr hættu á slysi eða tjóni þegar vatnið kemst á að nýju. Ráðlegt er að hafa glugga lokaða og útidyr ekki opnar lengur en þörf krefur til að koma í veg fyrir að það kólni.

Starfsfólk Veitna biðst velvirðingar á óþægindum vegna þessa,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×