Innlent

Tíu vilja stýra Skaupinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Útvarpshúsið.
Útvarpshúsið. Vísir/Ernir
Ríkisútvarpinu bárust 10 umsóknir um framleiðslu á Áramótaskaupinu 2017. Umsóknarfrestur rann út síðastliðinn mánudag en að sögn dagskrárstjóra RÚV tekur nú við úrvinnsla umsóknanna. Stefnt er að því að ljúka samningum um mitt sumar en þetta er í fyrsta skipti sem hægt er að sækja um framleiðslu Skaupsins í opnu ferli.

Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV, segir í skriflegu svari sínu við fyrirspurn Vísis um umsóknirnar að einhverjir sem sóttu um hafi áður komið að gerð Áramótaskaupsins. Ákvörðun verður tekin á næstu vikum.

„Allnokkrar frambærilegar og spennandi umsóknir bárust. Jafnt frá aðilum sem áður hafa komið að gerð Skaupsins og/eða almennt látið til sín taka með góðu gríni og frá fólki sem hefur ekki áður komið nærri svona verkefnum. Alls voru umsóknir 10. Við munum fara vandlega yfir allar umsóknir, meta þær og mögulega kalla eftir frekari upplýsingum. Stefnt er að því að taka ákvörðun á næstu vikum og ljúka samningum fyrir mitt sumar.“

Þá segir hann að úr vöndu verði að ráða en umsjónarmenn og framleiðendur Skaupsins hafa aldrei verið valdir áður í opnu ferli. Hann segir ferlið í samræmi við nýútgefna stefnu RÚV.

„Eftir því sem við komumst næst er þetta í fyrsta sinn sem umsjónarmenn og framleiðendur Skaupsins eru valdir með þessum hætti, í svona opnu ferli, í það minnsta á síðari árum, en þetta er í samræmi við nýútgefna stefnu RÚV þar sem boðað er aukið og opnara samstarf og samtal við framleiðendur og höfunda sjónvarpsefnis.“

Óskað eftir „ítarlegri lýsingu á efnistökum“

RÚV auglýsti eftir umsækjendum fyrr á árinu en í auglýsingunni kemur fram að innsendar tillögur þurfi að innihalda „heildræna sýn á verkefnið; á aðferð innihald og nálgun við framleiðslu“ og „ítarlega lýsingu á efnistökum og nálgun í handriti.“

Aðspurður hvort RÚV telji kröfur um „ítarlega lýsingu á efnistökum“ í handriti sanngjarnar þegar aðeins tæpir sex mánuðir eru liðnir af árinu segir Skarphéðinn í svari sínu að tekið sé tillit til tímasetningar ráðningarinnar við mat á efnistökum.

„Allur gangur hefur verið á því hvenær ársins stjórnendur Skaups hafa verið skipaðir, stundum hefur það verið í byrjun árs, stundum um mitt ár og komið hefur fyrir, sérstaklega á árum áður að það hefur ekki verið gert fyrr en seint á árinu og er ætíð tekið tillit til þess þegar lagt er mat á nálgunina og efnistökin.“

Grínhópurinn Fóstbræður með Jón Gnarr í broddi fylkingar færði þjóðinni Skaupið í fyrra en tilkynnt var um ráðningu þeirra í september 2016.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×