Skoðun
Þórir Stephensen
fv. dómkirkjuprestur og staðarhaldari í Viðey

Eigum við að hætta að nota hjólið?

Þórir Stephensen skrifar

Síðustu dagana hef ég tvisvar séð fréttir af því að „dekk“ hafi losnað undan farartækjum og valdið meiðslum að mig minnir. Í annað skiptið var það „dekk“ á reiðhjóli, í hitt skiptið „framdekk“ á sjúkrabíl. Mig rak í rogastans. Uppfinning hjólsins fyrir meira en 5.500 árum hefur verið talin meðal notamestu tækninýjunga veraldarsögunnar og tæknimenning okkar byggir mikið á þessari gömlu og góðu uppgötvun. Þess vegna ofbýður mér, þegar fréttamenn 21. aldarinnar virðast ekki vita, hvað hjól er. Dekk er orð sem málið hefur samþykkt í staðinn fyrir orðið hjólbarði. En það er ekki hjól. Dekk er sérbúinn gúmmíhringur sem settur er utan um hjól á farartæki og yfirleitt fylltur lofti til að gera akstur á hjólinu þægilegri. Á reiðhjóli köllum við hjólhringinn gjörð, en á bifreið gjarnan felgu, sem er íslenskun á danska orðinu „fælge“. Það er held ég sárasjaldgæft að dekk fari af felgu eða gjörð farartækis á ferð. Enda voru fréttamennirnir ekki að segja okkur satt í ofannefndum tilvikum. Það sem fór af farartækjunum var felga/gjörð + dekk = hjól.

Annað þessu óskylt, en þó varðandi málfar, sá ég í dag, 13. júní. Þar var talað um að láta andstæðinga Íslands í íþróttum „bíta í gras“. Hið rétta orðalag er að láta menn „lúta í gras“. Þar að auki hef ég aldrei fyrr heyrt eða séð, að menn „bíti í gras“, hitt er er lenskan, að skepnur „bíti gras“, sbr. grasbítir. Í knattleikjum ýmsum tala fréttamenn einnig oft um „samstuð“. Þetta er úr dönskunni, „sammenstöd“, en á fallegri íslensku heitir þetta „árekstur“.

Svo ég ljúki þessu með fáeinum orðum er snerta farartæki á hjólum, langar mig að minna á gamalt og gott nafn á orðinu „stuðari“ á bifreið, en það var í sumra munni „þormur“, komið af sögninni að þyrma. Danir eiga reyndar enn skemmtilegra orð „kofanger“, sem Bogi Ólafsson yfirkennari mun hafa þýtt með hinu dásamlega orði „stórgripaskör“.
 
Höfundur er fv. dómkirkjuprestur og staðarhaldari í Viðey.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira