Innlent

Dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir að reyna að drepa barnsmóður sína

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maðurinn hefur áður hlotið dóm fyrir líkamsárás í garð konunnar.
Maðurinn hefur áður hlotið dóm fyrir líkamsárás í garð konunnar. VÍSIR/GVA
Hæstiréttur hefur þyngt fangelsisdóm yfir karlmanni fyrir tilraun til manndráps, nauðgun, sérstaklega hættulega líkamsárás og frelsissviptingu með því að hafa haldið barnsmóður sinni nauðguri í íbúð hennar í júlí í fyrra.

Maðurinn fær tíu ára dóm í Hæstarétti en fékk átta ára fangelsisdóm í héraðsdómi í febrúar. Þá voru bætur mannsins til konunnar hækkaðar úr 2,5 milljónum króna í 3,5 milljónum króna.

Dómurinn var kveðinn upp í Hæstarétti í dag en maðurinn var dæmdur fyrir að hafa haldið konunni nauðugri í íbúð hennar í tvær klukkustundir. Á meðan á frelsissviptingunni stóð veittist hann að henni með margvíslegu ofbeldi, þvingaði hana til samfara, endaþarms- og munnmaka, tók hana hálstaki og herti þannig að hún náði ekki andanum. Missti hún meðvitund um stund.

Við ákvörðun refsingar í Hæstarétti var litið til þess að brotin voru mjög alvarleg og lægju við hverju þeirra þung fangelsisrefsing. Þá hefði hann með brotum sínum rofið skilorð eldri dóms þar sem hann var sömuleiðis sakfelldur fyrir líkamsárás í garð konunnar. Var sá dómur tekinn upp og manninum gerð refsing í einu lagi fyrir öll brotin.

Með vísan til þess að maðurinn hefði með hrottafengnu framferði sínu brotið gróflega gegn persónu og frelsi konunnar var honum gert að greiða henni 3,5 milljónir króna í miskabætur.

Dóminn í heild má lesa hér. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×