Viðskipti innlent

Máli gegn VSV vísað frá

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Guðmundur Kristjánsson útgerðarmaður, kenndur við Brim.
Guðmundur Kristjánsson útgerðarmaður, kenndur við Brim.
Héraðsdómur Suðurlands hefur vísað frá máli sem Brim höfðaði á hendur Vinnslustöðinni til ómerkingar á stjórnarkjöri sem fram fór á aðalfundi og hluthafafundi Vinnslustöðvarinnar síðasta sumar.

Var það niðurstaða dómsins að Brim, sem er næststærsti hluthafi Vinnslustöðvarinnar með tæplega 33 prósenta hlut, hefði ekki sýnt fram á að félagið hefði lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um kröfur sínar.

Brim kvaðst hafa lögmæta hagsmuni af því að krefjast þess að fyrra stjórnarkjörið á aðalfundinum, sem fram fór 6. júlí, gilti, enda væri ljóst að úrslit síðari kosninganna hefðu ekki verið félaginu eins hagstæð og úrslit fyrri kosninganna. Eins og kunnugt er skilaði atkvæðaseðill eins hluthafa sér ekki í kjörkassa en það atkvæði hefði ráðið úrslitum um stjórnarkjörið. Ákvað fundarstjóri því að endurtaka stjórnarkjörið en þá náðu fulltrúar Brims, bræðurnir Guðmundur og Hjálmar Kristjánssynir, ekki kjöri í stjórn og varastjórn.

Stjórn Vinnslustöðvarinnar boðaði í kjölfarið til hluthafafundar, sem fór fram þann 31. ágúst, þar sem kosið var til stjórnar á ný. Brim mótmælti því harðlega og vísaði til þess að fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra hefði málið til skoðunar. Á hluthafafundinum var stjórn félagsins sjálfkjörin, en fulltrúar Brims drógu framboð sitt til baka rétt fyrir fundinn.

Var það niðurstaða dómsins, eins og áður segir, að Brim hefði ekki sýnt fram á að félagið hefði lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um kröfur sínar í skilningi 1. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×