Erlent

Warmbier varð fyrir alvarlegum heilaskaða í haldi Norður-Kóreumanna

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Læknar Otto Warmbier.
Læknar Otto Warmbier. Vísir/EPA
Læknar bandaríska námsmannsins Otto Warmbier, segja að hann hafi hlotið alvarlegan heilaskaða í haldi Norður-Kóreumanna og sýni engin merki um meðvitund. Guardian greinir frá. 

Warmbier sem er 22 ára gamall var dæmdur til fimmtán ára nauðungarvinnu af norður-kóreskum stjórnvöldum fyrir að stela áróðursskilti á hóteli sínu þegar hann heimsótti landið í janúar 2016. Honum var sleppt lausum fyrr í vikunni, í dái.

Foreldrar Wambier sögðu fyrr í dag að þeir taki skýringar Norður-Kóreumanna á ástandi sonar síns ekki trúanlegar en þeir segja að hann hafi fengið botúlíneitrun og því legið í dái frá því í mars í fyrra. Faðir hans hefur sagt að hann telji að sonur sinn hafi verið pyntaður.

Sjá einnig: Faðir Warmbier trúir ekki skýringum Norður-Kóreustjórnar

Samkvæmt Daniel Kanter, taugalækninum á spítalanum í Ohio er ástand Warmbier stöðugt en hann „sýnir enga merki um að skilja tungumál eða skipanir og þá virðist hann ekki gera sér grein fyrir umhverfi sínu.“ 

Warmbier andi þó á eigin spýtur en hann er ófær um að tala eða hreyfa sig að öðru leyti á nokkurn hátt. Norður-kóresk yfirvöld segja að þau hafi látið Warmbier lausan af mannúðarástæðum. 

Læknar Warmbier segjast ekki hafa fundið nein merki um umrædda botúlíneitrun heldur sé ástandið eitthvað sem skapist með viðvarandi súrefnisskorti og skorti á blóðflæði til heilans. 

Fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, Bill Richardson, hefur kallað eftir því að sjálfstæð rannsókn verði sett á laggirnar til þess að komast að hinu sanna í máli Warmbier.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×