Innlent

Vopnaburður lögreglu ræddur á fundi allsherjarnefndar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ríkislögreglustjóri lengst til vinstri ásamt öðrum fundargestum.
Ríkislögreglustjóri lengst til vinstri ásamt öðrum fundargestum. Vísir/Jói K
Ríkislögreglustjóri, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, forseti borgarstjórnar og borgarstjóri mættu á fund allsherjar- og menntamálanefndar á skrifstofum Alþingis í morgun. Til umræðu er vopnaburður lögreglu.

Óhætt er að segja að um umdeilt mál sé að ræða í samfélagi Íslands sem má rekja til óvænts útspils ríkislögreglustjóra síðustu helgi þegar The Color Run fór fram í miðbæ Reykjavíkur. Stórir flutningabílar lokuðu götum og skammbyssur voru sýnilegar á sérsveitarmönnum sem stóðu vaktina.

Rétt fyrir fundinn í morgun.Vísir/Jói K
Síðan hefur Þjóðaröryggisráð Íslands fundað vegna málsins á öryggissvæði Landhelgisgæslunnar í Keflavík. Þá hefur komið fram að vopn verði sömuleiðis sýnileg á 17. júní hátíð um helgina og fleiri stórviðburðum í sumar.

Þrátt fyrir þetta útspil ríkislögreglustjóra sem útskýrt hefur verið að sé vegna hryðjuverkaárásanna í London nýlega hefur viðbúnaðarstig vegna hryðjuverka ekki verið hækkað.

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri hefur bent á að sérsveitarmenn séu alltaf vopnaðir en munurinn nú sé að vopnin séu sýnileg. 

„Þeir sem hafa fylgst með fréttum sjá það að það eru ítrekaðar myndir af sérsveitarmönnum vopnuðum í alls konar verkefnum. Þeir eru meira vopnaðir en ekki í dag. Þannig að þessi ráðstöfun, að setja vopnin utanklæða með þessum hætti er til að tryggja skjót viðbrögð ef eitthvað kemur upp á í mannþröng. Þá þurfa þeir að geta verndað borgarana ef eitthvað kemur upp á, í stað þess að hörfa og sækja vopnin í geymslur eða lögreglubílana sem eru kannski einhvers staðar frá þeim. Þar eru mínútur sem kannski skipta máli upp á líf eða dauða,“ segir Haraldur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×