Innlent

Þroskaskertur maður að endingu dæmdur í 18 mánaða fangelsi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Maðurinn var dæmdur í 18 mánaða fangelsi í Hæstarétti.
Maðurinn var dæmdur í 18 mánaða fangelsi í Hæstarétti. Vísir/GVA
Hæstiréttur hefur dæmt mann, sem metinn var þroskaskertur af geðlækni, í 18 mánaða fangelsi. Héraðsdómur hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að vegna þroskaskerðingar mannsins skyldi honum ekki gerð refsing í málinu.

Málinu var skotið til Hæstaréttar 10. Janúar 2017 en dómur Héraðsdóms hafði verið kveðinn upp nokkrum dögum áður. Þar var manninum ekki gert að sæta refsingu vegna brota sinna.

Maðurinn var sakfelldur fyrir tvö ránsbrot, tilraun til ráns og þjófnaðarbrot. Með brotum sínum rauf hann skilorð dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. júní 2014 þar sem hann var dæmdur í 30 daga fangelsi. Var sá dómur tekinn upp og refsing mannsins ákveðin í einu lagi fyrir bæði málin í Hæstarétti.

Maðurinn hlaut ekki refsingu fyrir þessi brot í Héraðsdómi en Hæstiréttur dæmdi hann til að sæta fangelsi í 18 mánuði fyrir brotin.

Tekið tillit til þroskahömlunar mannsins í dómi Héraðsdóms

Í dómnum kemur fram að litið hafi verið til þess að brotin, sem rufu skilorð yfir manninum, hefðu verið alvarleg og ófyrirleitin en maðurinn hefði ýmist verið vopnaður hnífi eða hamri. Þá var einnig tekið tillit til þess að hann hefði gefið sig fram að fyrra bragði við lögreglu og játað brot sín skýlaust.

Í niðurstöðu geðheilbrigðismats frá því í nóvember síðastliðnum kemur fram að ákærði sé greindur með væga þroskaskerðingu og að greind hans svari til vitsmunaþroska 12 ára barns. Í dómi Héraðsdóms var tekið tillit til þessarar þroskahömlunar og mat dómsins að refsing bæri ekki árangur í tilfelli ákærða.

Hæstiréttur staðfesti hins vegar sakfellingu yfir manninum og hann því dæmdur til að sæta fangelsi í 18 mánuði. Vegna andlegra haga ákærða er þó til þess að líta að Fangelsismálastofnun getur, að undangengnu sérfræðiáliti, leyft að fangi sé vistaður um stundarsakir eða allan refsitímann á heilbrigðis- eða meðferðarstofnun. Þá var manninum einnig gert að greiða málsvarnarlaun verjanda síns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×