Menning

Elmar syngur O, sole mio og Sigrún Spilar Zardas eftir Monti fyrir hlé

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Við helgum seinni helminginn algerlega Franz Lehár,“ segir Sigurður Ingvi.
„Við helgum seinni helminginn algerlega Franz Lehár,“ segir Sigurður Ingvi. Vísir/GVA

Vínarlög, aríur, dúettar, valsar og ungverskir dansar verða á árlegum hátíðatónleikum Salon Islandus í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju í Garðabæ í kvöld. Þeir hefjast klukkan 20.

Einsöngvarar með sveitinni í ár eru þau Lilja Guðmundsdóttir sópran og Elmar Gilbertsson tenór. „Einsöngvararnir eru aðalatriðið og svo sólóið hennar Sigrún Eðvalds á fiðluna,“ segir Sigurður Ingvi Snorrason, stjórnandi sveitarinnar.

 „Elmar syngur Ó, sole mio og Sigrún spilar Zardas eftir Monti fyrir hlé,“ tekur hann fram og heldur áfram.

„Við förum út um víðan völl í fyrri hluta prógrammsins, erum bæði með ungverskt þema og svo koma tveir Napólíbúar sem sömdu O, sole mio og Zardasinn.  Jóhann Strauss verður alltaf að vera á sínum stað, við erum með vals og polka eftir hann og svo endum við fyrir hlé á frægasta Vínarlagi allra tíma, Vín, Vín þú aðeins ein. Þau syngja það bæði, Lilja og Elmar.“

 Seinni helming tónleikanna segir Sigurður algerlega helgaðan tónskáldinu Franz Lehár. „Þá heyrast frægar aríur eftir hann, meðal annars úr óperettunni Brosandi landi.

„Það er alltaf nýtt og nýtt prógram á þessum tóleikum þó þeir séu árvissir,“ segir hann.

Með hljómsveitinni leika að þessu sinni auk Sigurðar á kontrabassa og Sigrúnar Eðvalds á fiðlu þau Sigurlaug Eðvaldsdóttir á fiðlu, Bryndís Björgvinsdóttir á selló, Hávarður Tryggvason á kontrabassa, Martial Nardeau á flautu, Anna Guðný Guðmundsdóttir á píanó og Frank Aarnink á slagverk.
Ókeypis er inn.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira